Við vorum viðstödd kaþólska barnaskírn í gær. Það var í fyrsta sinn. Athöfnin var öll hin fegursta. Foreldrarnir ljómuðu af ánægju og gleði sem og skírnarvottarnir. Aðrir aðstandendur samglöddust og tóku virkan þátt í söngnum. Séra Jakob Rolland, prestur við Kristskirkju á Landakotstúni, framkvæmdi skírnina sem fram fór í Skálholtsdómkirkju.
Athöfnin tók um 45 mínútur. Ekki var annað á döfinni í kirkjunni á meðan athöfnin fór fram. Fyrst fór fram samtal á milli prests, foreldra og skírnarvotta frammi við inngöngudyr. Aðrir sátu innst í kirkjunni. Síðan komu þau innar og skírnarathöfnin hófst með ýmiskonar ritúali, formvenjum, sem ég hef ekki verið viðstaddur áður.
Séra Rolland gerði þetta fallega. Hann var auðmjúkur, góðlegur og afslappaður. Beindi hann orðum sínum, á milli, til barna sem voru viðstödd. Meðal annars um vatnið. „Hvað gerum við við vatn?“ spurði hann. Og þegar þau höfðu sagt sitt álit á því þá tók hann undir við þau: „Alveg rétt. Við þvoum okkur, hreinsum okkur, með vatni og við nærumst á vatni. Engin getur lifað nema skamma stund án vatns. Þess vegna er vatnið táknrænt.“
Svo var barnið ausið vatni og sungin bæn til Maríu og hún beðin að blessa barnið og foreldrana. Einnig var beðið til löngu látinna manna sem teknir höfðu verið í dýrlingatölu og þeir beðnir um að vaka og blessa líf og ævi barnsins. Loks var barnið smurt með olíu og sungin sálmur: „Mikli Drottinn, dýrð sé þér…“ Viðstaddir sungu með.
Svo fóru allir að kyssast og óska til hamingju og voru kátir og afi og amma barnsins, frá Þýskalandi, fengu vígða vatnið úr skírnarfontinum með sér í glerflösku til að helga hin ýmsu tímamót í framtíð litlu manneskjunnar. Þetta var helg og heilög stund og ánægjulegt að vera viðstaddur.
Það er samt eitt við barnaskírnir sem ég hef aldrei getað skilið þótt velviljaður og jákvæður sé. Gildir það bæði um lúterska siði sem og kaþólska, en það er sú staðhæfing að barn endurfæðist í skírninni. Mér hefur aldrei tekist að fella þá staðhæfingu að biblíulegum skilningi mínum á hinu stórkostlega kraftaverki sem endurfæðing er og er eiginlega ósáttur við hana.
En hvað um það, barnið hlaut nafnið Freyja Líf og er annað barn Hallgríms V. Arnarsonar og Miriam konu hans.