Helgi og Hannes – gamlir taktar

Það var sunnudagur, næstur fyrir frídag verslunarmanna, skömmu fyrir hádegi. Þeir höfðu setið um hríð á bekknum og notið kyrrðarinnar og horft á einstaka seglskútu líða áfram úti á sundinu og sjófugl sveima yfir og kríupar stinga sér eftir æti. Ysinn og þysinn var dreifður um þjóðvegi landsins, vestur, norður, austur og suður.

Helgi: Það er eins og öll veröldin sé á ferðalagi.
Hannes: Það má nú segja.
Helgi: Og gott hér.
Hannes: Það má nú segja.
Helgi: Og veðrið blítt.
Hannes: Það má nú segja.

Þögn.

Helgi: Hefur þú farið eitthvað?
Hannes: Reyndar.
Helgi: Var það skemmtilegt?
Hannes: Já, já.
Helgi: Hvernig bar það til?
Hannes: Ungur frændi, heitir Hannes eins og ég, hringdi og bauð í franskar.
Helgi: Bauð hann í franskar?
Hannes: Já. Hann var að fá bílpróf .
Helgi: Og bauð þér í franskar?
Hannes: Já. Mamma hans lánaði honum bíl og sagði honum að bjóða mér.
Helgi: Ertu fyrir franskar?
Hannes: Já. Hún vissi það.

Helgi: Og hvert fóruð þið?
Hannes: Hólmavík.
Helgi: Hólmavík?
Hannes: Já. Kaupfélagssjoppuna.
Helgi: Kaupfélagssjoppuna á Hólmavík?
Hannes: Já.
Helgi: Og fenguð franskar?
Hannes: Já. Stóran skammt og tómat og sinnep og kók.
Helgi: Tómat, sinnep og kók.
Hannes: Já.

Þögn.

Hannes: Sjoppan var full af þjóðverjum. Heil rúta. Eldra fólk. Hávært og fyrirferðarmikið.
Helgi: Heil rúta. Hávært fólk?
Hannes: Já. Maður heyrði ekki í sjálfum sér.
Helgi: Var það ekki leiðinlegt?
Hannes: Hlátrasköll og hróp og svo fór einn að ropa fullum hálsi og skellihló.
Helgi: Ropa?
Hannes: Já, við næsta borð og þröng við borðið hjá honum.
Helgi: Sat hann við næsta borð og ropaði?
Hannes: Já. Ungi frændi minn, heitir Hannes eins og ég, var alveg gáttaður á látunum.
Helgi: Og hvað?
Hannes: Hann sagði, Hannes frændi, eigum við ekki bara að koma út?
Helgi: Vildi hann fara?
Hannes: Já.
Helgi: Hvað sagðir þú þá?
Hannes: Ég hugsaði mig um. Stóð svo upp og lagði aðra höndina á öxlina á þýska manninum sem ropaði, það sátu um tíu manns við borðið hjá honum.
Helgi: Og hvað gerðist?
Hannes: Ég ávarpaði manninn á þýsku. Fullum hálsi.
Helgi: Fullum hálsi?
Hannes: Það varð steinhljóð í sjoppunni.
Helgi: Á þýsku?
Hannes: Svo settist ég og kláraði frönsku kartöflurnar mínar.
Helgi: Hvað sagðir þú?
Hannes: Ungi frændi minn horfði á mig með aðdáun. Hann spurði eins og þú.
Helgi: En hvað sagðir þú?
Hannes: Ég svaraði ekki unga frænda mínum, hann heitir Hannes eins og ég, fyrr en við vorum komnir bæinn.
Helgi: En hvað sagðir þú í sjoppunni?

Hannes þagði við. Rétti svo úr bakinu og sagði:

Hannes: Deutsches Benehmen vermute Ich?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.