Í framhaldi af athugasemd við síðasta pistil.
Sæl vertu kæra Birna. Ákaflega er ég glaður og þakklátur fyrir þitt örláta tilboð, – sem þú sendir í athugasemd við síðasta pistil minn, – um bækur að láni í sumarleyfinu. Það yljar mér verulega um hjartaræturnar. En, í trúnaði sagt, þá er ég svo meingallaður í sambandi við bækur, ekki eins og það séu einu meingallar mínir, sei, sei, nei, nóg er af þeim, að ég get eiginlega alls ekki lesið bækur sem ég á ekki sjálfur. Þetta byrjaði í mér um fermingu.
Við vorum tveir bræður þá, bróðir minn, þrem árum eldri en ég, blessuð sé minning hans, – ég man enn hvað mér þótti þægilegt að hann hafði engan áhuga á bókunum sem ég eignaðist og las af ákafa. Sama gilti um mig og hans bækur sem mér þóttu barnalegar. Svo með árunum jókst þessi eigingirni í mér gagnvart öllum nema Ástu minni. Í hennar tilviki var það þannig að mér þótti enn vænna um bækur sem hún fékk dálæti á. Það var svo elskulegt.
Mörg árin, þegar vel áraði, fórum við saman í bókabúðir í desember og keyptum gjarnan fimmtán til tuttugu bækur fyrir jólin. Bæði handa okkur sjálfum og til gjafa. Þess á milli keypti ég eina og eina sem komst í umræðuna. Á mögru árunum fór ég í fornbókabúðir, þær voru allnokkrar og eigendur þeirra sumra urðu kunningjar mínir og stundum kom ég með fulla stóra poka af bókum heim og við Ásta röðuðum þeim saman upp í hillur. Lögðumst síðan í lestur og ræddum bækurnar. Það var líka svo elskulegt.
Svo rammt kveður að þessum meingalla mínum gagnvart bókum, þessi árin, að þegar ég hætti að vinna, sem var fyrr en ég sjálfur hefði kosið, þá áætlaði ég að stunda bókasöfn til að drýgja samanskroppnar tekjur, – en fékk alltaf þessar andstyggðar bólur þegar ég kom heim með bækur af safni, og skilaði þeim gjarnan ólesnum.
Svona er nú þetta kæra bloggvinkona. En mér þykir vænt um tilboð þitt og elskulegheit og endurtek þakklæti mitt, í einlægni. Óska þér alls hins besta og ánægjulegs sumars og sólbaða í „Borgartúninu“ þínu. Við, gamla settið, eins og afleggjararnir gjarnan kalla okkur, förum í sveitina í fyrramálið. Það verða nokkrar bækur í farteskinu.
:]