Fetað í eigin spor

Við erum komin í frí, hjónin, og verðum á okkar uppáhaldsslóðum uppi í Borgarfirði næstu vikur. Þar eiga spor okkar meira en fimmtíu ára sögu. Við ætlum að ganga í þau. Eigin spor. Og spjalla og rifja upp. Svo setjumst við á þúfu og annað okkar segir: „Manstu eftir laginu hans Fúsa um dálítinn svertingjakofa,“ og hitt svarar: „Já, og Úti við svalan sæinn,“ og við þvöðrum og rifjum upp og hlæjum og látum hugann hvarfla til baka. Nostalgía.

Fremsti hluti Hvítársíðu er kallaður Krókur. Hefur þú komið í Hvítársíðu? Nema þá í bíl sem brunar á fullri ferð í gegnum sveitina og þeytir upp ryki og stansar í Húsafelli og kaupir pylsu og stansar við Barnafoss, stutt, og þeytist áfram og þyrlar upp meira ryki. Það er auðvitað komið bundið slitlag á helminginn af leiðinni núna. En þú vissir ekki hvar átti að stansa til að sjá fegurstu staðina. Sem ekki er von.

Mynd 1

Þegar við vorum krakkar í sveit þarna fram frá, þá þekktum við fullt af fallegum stöðum sem ekki sjást frá veginum. Gengum þangað eða fórum á hestum. Bílar virka ekki. Það er nefnilega villan í nútímanum þetta með bílana og „skuldahalana“ aftan í þeim. Þorvaldur Gylfason, prófessor, kallaði hjólhýsi og tjaldvagna, aftan í bílum, skuldahala, í grein nýlega. Það var skondið.

Mynd 4

Læt fylgja fáeinar myndir með pistlinum. Dæmi um fegurð fjær bílvegum. Og spyr: Getur einhver sagt hvað staðirnir heita? Það væri skemmtilegt

Mynd 2

Kallinn á göngu

Frúin á flottum stað

Bæti við fleiri myndum síðar. Njótið blíðunnar.

3 svör við “Fetað í eigin spor”

  1. Myndir númer eitt og þrjú eru frá Sílatjörn í Gilsbakkalandi. Myndir númer tvö og fimm eru frá Gunnlaugshöfða, einnig í Gilsbakkalandi.
    Það er ekki vanþóknun í svip fyrirsætunnar, fremur óþolinmæði.

  2. Ég hef aldrei ferðast um Borgarfjörðinn – á undir 90 kílómetra hraða (eða þar um bil). Þessar myndir sýna glöggt af hverju hinn dæmigerði „ferðamaður“ missir.

    Úr því skal ráðin bót við fyrsta tækifæri.

  3. Nei, ég gæti ekki sagt hvað þessar vinjar heita. En sumt af þessu er svo fallegt, að maður gæti dregið af því þá ályktun, að maður hafi aldrei komið í Borgarfjörð!

    Ég sé að mútta fær að halda á vélinni þarna einu sinni, en sjáanleg vanþóknun fyrirsætunnar leynir sér ekki. 😉

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.