Stundum heyrir maður, eða les, frásögur af fólki sem skar sig úr í samtíð sinni og ávann sér ódauðlegan orðstýr sem lifir allar kynslóðir. Þannig er um ítalska ljóðskáldið Jacopo de Benedetti, sem fæddist í kringum 1230 í Todi á Ítalíu. Hann skildi eftir sig ýmis trúarljóð sem voru bæði sungin og lesin.
Voru sum þeirra ort í dýrum bragarhætti og er kunnast þeirra Stabat Mater Dolorosa, ort á latínu, sem margir höfðu sem bæn sína í gegnum aldirnar og mörg af mestu tónskáldum sögunnar hafa samið ódauðlega tónlist við. Má þar nefna t.d. tónskáld eins og Rossini, Dvorak,
Jacopone las lög í Bologna, lauk doktorsgráðu og snéri þá aftur til Todi til að stunda lögfræði. Hann giftist Vanna di Guidone 1267, glæsilegri konu af aðalsættum og lifðu þau saman hamingjusömu lífi. Vanna dó af slysförum þegar svalir í leikhúsi sem þau sóttu hrundi. Þegar lík hennar var afklætt kom í ljós að hún klæddist grófum hör eða ullarfötum næst sér sem yfirbót vegna synda manns síns. Áfallið sem Jacopone varð fyrir við fráfall eiginkonunnar og uppgötvuninni um yfirbót hennar hans vegna, fékk hann til að breyta gjörsamlega um lífsviðhorf og lífsstíl. Hann gaf eignir sínar fátækum og klæddist lörfum. Fyrri félagar gáfu honum nafnið Jacopone, sem þýðir nánast Jakob-óði. Nafngiftina leit hann á sem heiðursmerki.
Eftir tíu ára yfirbót og sjálfsniðurlægingu vildi hann gerast fullgildur meðlimur í Fransiskureglunni en var hafnað vegna orðrómsins um Jakob-óða. Til að sýna fram á að hann væri ekki óður skrifaði hann ljóð um hégóma heimsins og varð það til þess að hann fékk inngöngu í regluna. Hann neitaði að láta vígjast en notaði tímann til að yrkja vinsæla sálma. Síðar lenti hann í pólitískum deilum kardinála og páfa og var dæmdur í fangelsi 68 ára gamall. Þar sat hann í fimm ár og orti mörg ljóða sinna. Síðustu þrjú ár ævinnar helgaði hann gerð harmljóða þar sem hið sígilda og vinsæla ljóð Stabat Mater Dolorosa ber hæst. Um Jacopone er sagt að hann hafi verið eitt mikilvægasta skáld miðalda.
Stabat Mater Dolorosa er byggt á biblíutextanum í Jóhannesarguðspjalli 19:25, þar sem segir: „En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir… ” Yrkisefnið er hinn djúpi skerandi harmur móður sem stendur álengdar og fylgist með dauðastríði sonar síns án þess að geta nokkuð að gert.
Eitt andsvar við „Jacopone da Todi“