Trúarbrögð og sósur

Þegar kunningjar mínir, frændur, makar frænkna minna og allskyns vinir, urðu sjötugir, þá yfirleitt veittist ég að þeim stríðinn og hrekkjóttur og sagði að nú væru þeir orðnir löglegar kerlingar. Yfirleitt tóku þeir þessu án svipbreytinga. Aldrei glaðlega. Svona lét ég við þá enda stríðni í ættinni. Afi minn, Steinn Þórðarson, var meinstríðinn og hló svo yndislega smitandi hlátri þegar honum tókst best upp í stríðninni.

Hvað um það. Ég er nú svo sem kominn í kerlingahópinn sjálfur og er harla glaður yfir því. Og til þess að standa undir titlinum, en við vitum öll að konur, unnustur, eiginkonur, mæður, ömmur og hvað þær heita nú allar, þessar elskur, sem við dáðum og tilbáðum fyrir allt það mjúka sem þær létu okkur í té á hvaða aldri sem þær voru, eru, – já, til þess að standa undir titlinum þá bætti ég einum mjúkum þætti við lífsstíl minn fyrr á árinu og hóf að baka allt brauð sem við þörfnumst, konan mín fyrirvinnan og ég heimavinnandi.

Þið ættuð bara að heyra hrósið sem ég fæ þegar Ásta kemur heim í kvöldmat eftir strangan vinnudag og fær til dæmis sjóðheita, heimagerða kjúklingasúpu og nýbakaðar rjúkandi hveitibollur og smjör. Þá bera skýin mann heldur betur á bólstrum sínum.

Það er einmitt bökunardagur í dag. Ásta er á starfsmannadegi austur í sveitum og ég því með alfrjálsar hendur. Á milli, í hléum, þegar brauðdeigin dvelja á hefunarstiginu, sest ég með Matarást Nönnu Rögnvaldardóttur til að skoða þetta og hitt í þeirri frábæru bók Það er vissulega frábær bók.

Í kaflanum um sósur segir m.a. þetta: „Frakkar hafa löngum verið mikil sósuþjóð. Domenico nokkur Caracolli sagði á átjándu öld: „Frakkar hafa aðeins ein trúarbrögð, en eiga sextíu mismunandi sósur. Í Englandi hafa þeir sextíu mismundandi trúarbrögð en aðeins eina sósu.“

Kannski sést það hvergi jafnvel og í færeysku bókinni Matur og matgerð, hvað við er átt þegar talað er um að þjóð eigi einungis eina sósu. Í kaflanum Sós er þar aðeins ein uppskrift – „sósin“ er gerð úr 10 g af smjörlíki, 1 matskeið af hveiti og 1 dl af vatni á mann. „Verður sósin ov tjúkk, er bara að tynna hana við vatni.““

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.