Helgi og Hannes – eftir storminn

Helgi mætti snemma á bekkinn næsta dag. Hann skimaði óþolinmóður eftir Hannesi og eftir því sem tíminn leið byrjaði hann að ímynda sér allskyns vandræði sem Hannes hefði lent í. Þegar svo Hannes birtist á næsta götuhorni gat Helgi ekki setið á sér og gekk á móti honum. Þeir gengu samhliða til baka í átt að bekknum. Þöglir fyrsta spölinn. Síðan:

Helgi: Þú ert seinn í dag.
Hannes: Nú já.
Helgi: Ertu haltur?
Hannes: Ekki teljandi.
Helgi: Þú stingur við.
Hannes: Það er ekkert.

Þeir gengu í átt að bekknum. Helgi iðaði í skinninu af forvitni. Hannes þagði.

Helgi: Hvernig gekk?
Hannes: Gekk hvað?
Helgi: Í gær.
Hannes: Í gær?
Helgi: Já. Mótmælin.
Hannes: Svona.
Helgi: Hvað þýðir það?
Hannes: Nú. Svona.

Þeir komu að bekknum og settust. Hannes var þungbúinn.

Helgi: Gastu hlekkjað þig?
Hannes: Já.
Helgi: Var það auðvelt?
Hannes: Nei.
Helgi: Hvað svo?
Hannes: Hún kom þarna konan.
Helgi: Hvaða kona?
Hannes: Út úr sendiráðinu.
Helgi: Og hvað?
Hannes: Ég sagði: I protest. I protest.
Helgi: Og hvað sagði konan.
Hannes: Hún sagði: I understand.
Helgi: Og hvað sagðir þú þá?
Hannes: Hvað átti ég að segja?

Það varð þögn á samtalinu. Helgi reyndi að sjá atburðinn fyrir sér. Hannes var brúnaþungur og hugsandi, en sagði svo:

Hannes: Hvað heldur þú að hafi gerst næst?
Helgi: Það veit ég ekki.
Hannes: Hún fór inn í húsið.
Helgi: Fór hún inn í húsið?
Hannes: Já. Konan. Bara si svona.
Helgi: Og hvað?
Hannes: Svo kom hún út aftur. Var þá með kaffibrúsa, hellti í bolla og sagði brosandi: Do you like some english tea?
Helgi: Og hvað sagðir þú þá?
Hannes: Me? Tea? Yes.Tíu drops.
Helgi: Þú þáðir teið?
Hannes: Þú hefðir átt að finna lyktina maður.
Helgi: Af teinu?
Hannes: Konan var flott.

Hannes rifjaði atvikið upp í huganum. Helgi reyndi að átta sig á atburðarásinni.

Helgi: Hvað gerðist eftir teið?
Hannes: Hún fór inn í húsið aftur.
Helgi: Og sagði ekkert meira?
Hannes: Nei. Ekkert meira.
Helgi: Og hvað gerðir þú þá?
Hannes: Hvað átti ég að gera?
Helgi: Það veit ég ekki.
Hannes: Ég ekki heldur.
Helgi: Og hvað?
Hannes: Rölti heim til mín.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.