Djásnin í stofunni

Mönnum er mislagið að yrkja. Sumir rembast og komast hvergi. Til að byrja með. Aðrir virðast eiga auðvelt með það frá fyrsta staf. Samanber eftirfarandi:

Saga af gömlu kvæði

Í skáldlegu uppnámi
orti hann ljóð,
í öndverðu
háfleygt og bundið.
En lesendur gátu ekki
hrifningu hans
né hjartslátt
í kvæðinu fundið.

Og svo liðu dagar. –
Þá dæmdi ´ann eitt kvöldið
til dauða
sitt gamla kvæði.
En mildaði dóminn
og orti það upp
af einstakri
þolinmæði.

Hann samræmdi efnið
og orðanna hljóm,
sem átti við formið
og ljóðið,
uns kvæðið var rímað
við reynslu hans sjálfs
og runnið í merginn
og blóðið.

Heiðrekur Guðmundsson er hér á ferð. Við endurlesningu kvæðabókar hans Landamæri, rifjast upp fyrri gleði við lesturinn.

Hagkvæmni

Sú var tíðin minnir mig,
meðan gengi þitt var lágt,
skjallaðir þú fyrst og fremst
fyrirmenn, sem gnæfðu hátt.

Nú er runnin önnur öld
yfir þróað sjónarsvið:
Þú færð meiri og meiri völd
með því að brosa niðrá við.

Sigling

Lærði að sigla
móðir mín
milli skers og báru
með ellefu krakka
innanborðs
og eiginmanninn
sér við hlið.

Þó andaðist hún
í hárri elli
og hafði aldrei
á skip stigið.

Stofuhornið

Þar átti sér afdrep forðum
elsta konan á bænum,
sat með prjóna og sagði
þér sögur og ævintýri.

En farin er hún að heiman
í húsið til jafnaldra sinna.
Þá sóttir þú sjónvarpstæki
og settir í stofuhornið.

Heiðrekur Guðmundsson fæddist 5. september 1910 á Sandi í Aðaldal, Suður –Þingeyjarsýslu. Hóf nám að Héraðsskólanum að Laugum árið 1930 en neyddist til þess að hætta vegna veikinda. Vann lengst af til ársins 1939 að búi foreldra sinni en flutti þá til Akureyrar. Hann var verkamaður á árunum 1940-1942, vann við verslunarstörf frá 1943-1968 og skrifstofumaður frá 1968. Hlaut listamanna styrk frá árinu 1947. Hann lést 29. nóvember árið 1988. Eftir hann liggja átta ljóðabækur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.