Helgi og Hannes – 21. júlí

Þetta var einn af fáum björtu dögum sumarsins. Helgi sat á bekk framan við Fríkirkjuna og horfði á vinsæla og óvinsæla fugla berjast um brauðið sem féll af borðum borgarbúa. Hannes kom gangandi úr suðri. Hann fór sér hægt. Stansaði hjá Helga og horfði með honum yfir Tjörnina. Settist.

Hannes: Það er atgangur í fuglunum.
Helgi: Það má nú segja.
Hannes: Nú vilja þeir skjóta þá.
Helgi: Já.
Hannes: Hefur þú skoðun á því?
Helgi: Nei.
Hannes: Ekki ég heldur.
Helgi: Þeir leita eftir athygli.
Hannes: Fuglar.

Þeir sitja þöglir um hríð. Fylgjast með því þegar sílamávur rennir sér niður að vatninu og reynir að hremma gulleitan andarunga. Atlagan mistókst

Hannes: Hann slapp.
Helgi: Í þetta sinn.

Helgi seilist eftir stórum innkaupapoka sem liggur við hlið hans. Hann leggur pokann yfir hnén á sér. Hannes horfir á pokann með spurnarsvip.

Hannes: Þú ert með flottan poka.
Helgi: Já.
Hannes: Átt þú hann?
Helgi: Já.
Hannes: Má maður spyrja hvað er í pokanum?
Helgi: Fáni.
Hannes: Fáni?
Helgi: Já. Íslenski fáninn.
Hannes: Íslenski fáninn?
Helgi: Já. Stærsta gerð. Flottur fáni.
Hannes: Og hvað ertu að gera með fána í poka?
Helgi: Í tilefni dagsins.
Hannes: Tilefni dagsins?
Helgi: Já. Rithöfundurinn minn á afmæli í dag.
Hannes: Rithöfundurinn þinn?
Helgi: Já. Hann hefði orðið hundrað og sjö ára í dag.

Eftir alllanga þögn stendur Hannes á fætur. Hann snýr sér að Helga sem situr með pokann á hnjánum. Horfir ýmist á Helga eða pokann.

Hannes: En af hverju flaggar þú ekki?
Helgi: Ég á ekki flaggstöng.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.