Hríslan og lækurinn

Í morgun árla, við Horngluggann, eins og flesta aðra morgna, sátum við og ræddum málin yfir kaffinu okkar og hlýddum á veðurstofuna lesa veðuryfirlitið. Staðarlýsing hvers svæðis endaði oftast með orðinu rigning. Við létum eftir okkur að fagna regninu og samglöddumst litlu skógarplöntunum sem við höfum verið að pota ofan í móa og mel í vor. Vori sem einkenndist af þurrki og kulda.

Ásta sagði mér þá frá því að í vinnunni hennar, þar sem sjö konur starfa, fari þær flestar neikvæðum orðum um rigninguna og telji hana hið leiðinlegasta veður og löngu kominn tími til að það stytti upp. Ásta bregður öðru vísi við regninu og fer um það hinum mýkstu orðum og miðlar vinnufélögunum af fögnuði sínum yfir regninu. Bregðast þær gjarnan hinar verstu við rigningaraðdáun hennar og segja að þær hafi nú litla samúð með einhverjum plöntum uppi í Borgarfirði.

Svipað henti mig niðri í forstofu í blokkinni í fyrradag. Konur komu hlaupandi inn úr rigningunni úr bílum sínum og höfðu hin verstu orð um „þessa eilífu andsk… rigningu.“ Ég brá við líkt og Ásta og sussaði á þær og sagði að svona mætti ekki tala, þetta væri það besta sem hent gæti gróðurinn sem mundi nú breiða úr grænum blöðum sínum og teyga vætuna fagnandi, eins og „hríslan á græna balanum“ hans Páls Ólafssonar. „Fyrr má nú aldeilis vera,“ svaraði ein viðstaddra, „eins gott að plönturnar drukkni ekki.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.