Söngtrío anno 1954

Gömul ljósmynd kom upp í hendurnar á mér fyrir skömmu við tiltekt í gömlu dóti. Hún er af söngtríói sem stofnað var á Hvanneyri veturinn 1954, í tilefni af 1. des. hátíðinni sem var einskonar árshátíð skólans á þeim árum. Þar tróð tríóið upp og söng nokkur lög, gömul og ný, svo sem: Anna mín með ljósa lokka, / líf og fjör og yndisþokka. Var lagið tileinkað Önnu Hauksdóttur, Jörundssonar, sem starfaði á skólanum þetta árið.

Þessi hátíð, „fyrsta des“, eins og hún var ævinlega kölluð, var eitt megin tilhlökkunarefnið allt haustið. Voru haldnir fundir og menn kjörnir í ýmsar nefndir til að undirbúa, skipuleggja og raða í störf. Allir nemendur fengu hlutverk. Gerðir voru leikþættir fullir af gríni og lífsgleði, ljóðabálkar samdir og lesnir upp og ræður haldnar. Allt gert til að skemmtunin yrði hin besta.

Sá siður hafði komist á að námsmeyjum í Húsmæðraskólanum á Varmalandi var boðið til hátíðarinnar og komu þær gjarnan allar. Einum eða tveimur kennurum þeirra var gert að fylgja þeim. Hefur það væntanlega verið til að gæta siðgæðisins enda líklegt að hormónaflæðið, þegar þessum liðlega hundrað kraftmiklu ungmennum var stefnt saman, hafi náð hættulegu hámarki þegar líða tók á kvöldið og dansinn.

Þetta voru að mörgu leyti góðir tímar. Félagarnir flestir góðir náungar og glaðbeittir og krafturinn og lífsþorstinn í algleymingi. En svo ég haldi mig nú við myndina, sem ég birti hér í gamni mínu í tilefni þess að fimmtíu ár eru liðin frá útskrift árgangsins, þá eru meðlimir tríósins þessir, talið frá vinstri á myndinni: Rafn Hjartarson, Þórður Ásgeirsson og Óli Ágústsson.

Á þessum árum áttum við 78 snúninga plötur með Frankie Laine, High Noon, Granada og Jezebel, með Kay Starr, Side By Side og Come On-A My House og gítarsnillingunum Les Paul og Mary Ford, en lög þeirra eru óteljandi. Og svo auðvitað alla hina. Við sátum stundum saman yfir þessum lögum, Jón Guðmundsson vinur minn og félagi, eins og ég kallaði hann, og drukkum í okkur tónlistina með lokuð augun og veltum hausnum með taktinum. Þetta var á þeim árum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.