Þær eru ógleymanlegar margar ánægjustundirnar sem bækur Halldórs Kiljan Laxness veittu mér í gegnum árin. Sem og þúsundum annarra lesenda hans. Að sjálfsögðu. Aftur og aftur tók ég bækurnar fram og endurlas uppáhaldskaflana mína. Ýmsar persónur þeirra hafa orðið eins og hluti af lífinu. Hetjur sérkennilegra viðhorfa, orða og hnyttni.
Margar persónanna, ódauðlegar, er vitnað í og farið með setningar eftir í samtölum með góðu fólki á góðum stundum. Og dæst yfir hinum gullna innri tóni. Í gegnum árin. En svo allt í einu gerðist það, í þessum svokallaða íslenska menningarheimi, að fylkingar særðu fram menningarandskota sem krafsar eins og tarfur í flagi og rótar upp leir og ryki.
Þetta kom í huga minn í morgun. Við horngluggann. Lítið kringlótt borð er þar við stólana sem við drekkum morgunkaffið við. Á borðinu eru alltaf þrjár til fjórar bækur. Hver ofan á annarri. Í morgun voru þar Árbók bókmenntanna, efst. Við lesum úr henni á hverjum morgni, Allir heimsins morgnar, af því að hún fjallar meðal annars um Grátstafi og iðrun. Og neðst er ævisaga Halldórs Guðmundssonar um Halldór Laxness. Hún er ólesin.
Ólesin. Því miður. Fékk hana þó í jólagjöf. Frá Jóni Gils. Hef upplifað einskonar fælni gagnvart henni vegna menningarandskotans. Þá á ég við andrúmsloftið í kringum þá sem gefa sig út fyrir að vera hina sönnu „vita“ í bókmenntum og fræðum þeirra. Það er ljóta reikið. Sálfræðin skilgreinir fælni sem ótta, fóbíu, en það orð er dregið af Phobos sem var nafn á grískum Guði sem vakti ótta hjá óvinum sínum.
Ótti. Hvað ætli það sé sem ég óttast? Skyldu það vera skoðanir höfunda ævisagnanna um Halldór Laxness? Ótti við að þær eyðileggi fyrir mér ánægjuna af skáldsögum meistarans og viðhorfi til hans? Að ég treysti ekki höfundunum? Já. Það gæti verið það. Að ég treysti ekki höfundum ævisagnanna og byggi það vantraust á menningarandskotanum sem fylkingarnar vöktu upp. Og eyðilögðu þar með bækurnar fyrir mér. Vei þeim. Það á ekki að eyðileggja bækur.
Skemmtileg hugleiðing, sem ég tek undir. Höfundurinn er dauður fyrir margt löngu. ‘Tis true. Fátt er jafnskelfilega leiðinlegt og þegar bókmenntafræðingar ofnota ævi rithöfunda sem túlkunarleið að verkum þeirra.