Hugarburður

Stundum, í gamla daga, á unglingsárunum, varð ég svo glaður í sálinni að ég varð að blanda geði við fólk með einhverjum óvenjulegum hætti. Átti ég það til, staddur niður í Austurstræti til dæmis, að svífa á fólk sem þar var á ferð, ávarpa það og leggja til að við gerðum eitthvað saman. Man ég eftir einni svona ferð inn á Hressingarskálann í Austurstræti. Hann var þá eitt af hjörtum bæjarins. Þetta var skömmu eftir hádegi. Gunni í Jónshúsi var með mér.

Við höfðum farið með strætó niður í bæ. Leiðin hét Skerjafjörður. Ég var með munnhörpuna mína og spilaði á hana í vagninum. Farþegarnir tóku þessu vel og sögðu eitthvað fallegt við mig. Halli Skúla, vagnstjórinn, brosti. Svo dönsuðum við Gunni í Jónshúsi yfir Lækjartorg. Ég bauð fólki góðan dag á báða bóga, og síðan fórum við inn á Hressó. Þar voru fjórir salir. Nokkuð af fólki í þeim flestum.

Ég gekk að einni afgreiðslustúlkunni, hún voru klædd í svört einkennisföt með hvíta svuntu, og buddu bundna um mittið. Ég spurði hana hvort hún vildi dansa við mig. Hún brást illa við. Hótaði lögreglu. Þá reyndi ég við einn viðskiptavininn, konu á miðjum aldri. Hún var ósköp fín með sig og leit niður á skóna mína. Gleðin yfir einhverju inni í sálinni í mér lét samt ekki bugast. Ég dró munnhörpuna upp úr vasa og tók að spila gömlu dansana. Þá var eins og slaknaði á umhverfinu.

Ég var svo staddur í Kringlunni í gær, föstudag. Um þrjú leytið. Þá fór þessi gleðitilfinning í gang eins og í gamla daga. Ég kom inn í Hagkaup. Gekk framhjá forsíðu Dagblaðsins. Merkilegt hvað hún minnir alltaf á niðurgang. Síðan grænmetinu, gúrkum og gulrótum, sveppum og káli, ávöxtum, appelsínum og eplum, melónum og mangóum. Og öllum þessum aragrúa af tegundum sem ég kann engin skil á.

Þarna var fólk að tína í poka til helgarinnar. Konur í þykkum kápum, konur sem hnepptu frá sér peysum, skríkjandi stúlkur. Þá var þarna skrítinn hvíthærður karl, í svörtum skósíðum aðhnepptum frakka, með uppbrettan kraga. Hann var dálítið fattur og rigsaði um. Svo birtist þarna konan í brúnu kápunni. Ég kannaðist við hana. Hún seldi mér filmur í einni af verslunum Hans Petersen um langt árabil.

Skyldi hún vilja dansa? Átti ég að áræða? Nei. Ég vogaði ekki. Enda orðinn löggiltur. Karl. Gamall karl með grátt skegg. „Gráni kominn í hús,“ sagði Ásta eitt sinn þegar ég kom inn úr skafrenningi og frosti. Þá hló öll fjölskyldan. Að vonum. Auðvitað dansa ég ekki i dag. Mig brestur kjark. Skilst að það sé hluti af efri árunum. Kjarkleysi. Prédikarinn ræðir þetta. Hann segir m.a:

„Og mundu eftir skapara þínum… …þá er þeir skjálfa sem hússin geyma… …og sterku mennirnir verða bognir… …þá menn eru hræddir við hæðir og sjá skelfingar á veginum… …Aumasti hégómi, allt er hégómi.“ Hégómi? Er þá gleðin hégómi? Eða klikkun? Kölkun kannski? Ásta kom nú upp að hliðinni á mér, akandi innkaupakörfu, tók undir handlegg minn og sagði: „Ég held að allt sé komið.“ Hélt síðan áleiðis að kössunum. „Viltu dansa við mig?“ spurði ég. „Hérna,“ hváði hún. „Já, hérna,“ svaraði ég. „Allt í lagi,“ sagði hún og sleppti körfunni. En þá guggnaði ég.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.