Kuldaboli

Ók þarna um í morgun snemma. Fremur kuldalegt. Hinkraði smástund utan við Stjórnarráðið. Vildi fá fólk á myndina. Það var ekkert fólk að fá. Og einungis ein glansbifreið í ráðherrastæðinu. Væntanlega nýi forsætisráðherrann. Hlýtur að vera spennandi að hafa allt þetta vald. Og Davíð hvergi nærri til að setja fingurna í málin. Er ekki frá því að á Alþingi séu menn djarfari í tali, að Davíð fjarstöddum.

Margar minningar um norðan næðinginn komu upp í hugann í kuldabolanum í morgun. Þegar við bræðurnir, á unglingsárunum, komum gangandi sunnan af Grímsstaðarholti með fjúkið í fangið. Gengum ævinlega Suðurgötu, Tjarnargötu, Austurvöll, Pósthússtræti og að Verkamannaskýlinu. Í leit að vinnu. Á Eyrinni. Og alltaf illa klæddir. Þá var stundum lítið um vinnu og launin eftir því.

Svakalega gat manni orðið kalt. Minnist þess að eitt sinn fengum við vinnu við að ferma vörubíla með spírum sem notaðar voru í fiskitrönur. Spírurnar voru í stöflum og á kafi í snjó og snjórinn frosinn. Við losuðum þær sundur með því að sparka í þær. Tókum svo á þeim ísuðum, berhentir og settum þær á upp á vörubílspalla. Og hættum að finna fyrir höndunum. Þá var unnið frá tuttugu mínútur yfir sjö á morgnanna og til sjö á kvöldin. Og til hádegis á laugardögum. Það er samt verra að hafa enga vinnu.

Það er þó fremur heillandi að horfa á kuldabola þeysast og geystast. Verandi í góðu skjóli.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.