Hvítur hestur

Á Grímsstaðaholtinu í gamla daga bjó að stærstum hluta venjulegt fólk. Þegar ég segi gamla daga þá á ég við árin fyrir miðja síðustu öld. Með orðinu venjulegt fólk á ég við óbreyttar manneskjur, alþýðufólk sem vann við venjuleg störf og barðist í bökkum við að komast af. Við Þrastargötuna, en á Holtinu báru svo til allar götur fuglanöfn, bjuggu í einu húsinu hjón sem nutu sérstakrar virðingar foreldra minna, en það voru þau Helga þvottakona og Sigurður maður hennar, sem var smiður. Muni ég það rétt.

Við krakkarnir höfðum meira af Helgu að segja en manninum hennar. Kom það til af því að hún rak þvottahús í hliðarbyggingu við húsið sitt. Þar vann hún við að þvo tau fyrir annað fólk, alla virka daga. Voru dyrnar að þvottahúsinu hennar gjarnan opnar og var myndin af henni að puða í gufunni í þvottahúsinu, í hvítri svuntu og með bundið um hárið, og við að hengja þvott upp á snúrur, hluti af heimsmynd okkar.

Þetta rifjast upp fyrir mér á þessum dögum þegar haldið er upp á aldarminningu Guðmundar Böðvarssonar, skálds frá Kirkjubóli í Hvítársíðu. Ég hitti hann í fyrsta sinn árið 1951. Þá á minni fyrstu ferð að Gilsbakka til að vera sumarstrákur í sveit. Vegurinn fram Síðuna var ófær í vorleysingunum og komst mjólkurbíllinn ekki fram eftir. Var því fyrri spölurinn frá Síðumúla farinn í jeppa frá Háafelli, sem Þorvaldur bóndi þar ók, og seinni hlutinn í jeppa Guðmundar skálds á Kirkjubóli.

Ég var á ferðinni með bóndanum á Gilsbakka, Sigurði Snorrasyni, og var honum boðið í bæinn og mér með. Komu þau hjónin, Guðmundur og Ingibjörg, fram við mig, fjórtán ára strákinn eins og fullgildan mann, með lipurð og elskulegheitum. Þegar inn var komið og liðið á kaffið vildu þau vita eitthvað um mig. Ég reyndi að verjast, eins og ætíð, en þó uppgötvaðist að ég væri af Holtinu og úr nágrenni Helgu þvottakonu. Þá breyttist nú viðhorfið til mín því Ingibjörg húsfreyja var dóttir þeirra Helgu og Sigurðar. Var nú látið við mig eins og ég væri skyldmenni.

Eitt af ljóðum Guðmundar Böðvarssonar situr í minni mínu frá því að ég las það fyrst.
Ljóðið heitir Hvítur hestur. Þegar íslendingar heyra um hvítan hest kemur eflaust upp í huga þeirra hin kunna ljóðlína: „Þú komst í hlaðið á hvítum hesti. / Þú komst með vor í augum þér. ” eftir Davíð Stefánsson. Það er upphaf, von og framtíð í orðum Davíðs, en þegar Guðmundur yrkir um hvítan hest er komið að lokum ferðalagsins.
Leyfi ég mér að birta ljóð hans hér.

HVÍTUR HESTUR

Þegar hirðinginn fellir sinn hest
þá er hugur hans reikull og kvíðinn,
þvílíkt sem áttvilltum ógni
öræfaskuggar um kvöld,
þvílíkt sem sorglegan söng
syngi vindar á hausti
út yfir hjarðlausa afrétt
eftir seinustu leit.

Þegar hirðinginn fellir sinn hest
þá er hjarta hans söknuði fyllt,
eins og að aldrei framar
blikandi föx
beri við loft,
eins og að aldrei framar
einstakt kallandi hnegg
víðlendur veki af svefni
vorbjarta nótt.

Þungt verður honum í hug
sem horfir í fáksaugun brostin,
þvílíkt sem aldrei oftar
eld undir hófum kveiki
gamalla fjallvega grjót,
eins og að aldrei framar
útsýn í kyrrðinni gefist
ofan af öldunnar hrygg
yfir sauðlöndin góð.

Takið minn söðul og beisli
og berið á eld,
berið einnig á logann
erfðagrip minnar ættar,
áklæði slitið og fornt;
– hvað skal þeim söðull og beisli
sem aldrei oftar
unghest úr stóðinu kýs,
né borinn af fótléttum fáki
í fjalldrapans ilmsæla ríki
mælir sér mót við sól
að morgni smölunardags.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.