Brynhildur Piaf

Edith Gassion. Spörfuglinn í París. Við fórum í Þjóðleikhúsið og sáum þessa rómuðu sýningu. Hún er, án þess að nokkuð sé ýkt, stórkostleg skemmtun. Að minnsta kosti fyrir þá sem eru á líkum aldri og við. Þá sem ólust upp við söng þessa smáfugls og fregnir af sorg hennar og sigrum. Tregarödd, tregatónlist og tregatextar. Og Brynhildur. Þvílík frammistaða. Þvílík snilld.

Fyrst heyrði ég Brynhildi Guðjónsdóttur leika í útvarpsleikriti sem Inga Bjarnason leikstýrði. Leikritið fjallaði um kornunga gyðingatelpu sem beið dauðans, fársjúk af ólæknandi krabbameini. Innlifun Brynhildar í hlutskipti telpunnar var aldeilis frábær og er í ógleymanleg. Túlkun hennar, treginn í röddinni og næmi fyrir sorg og æðruleysi var gert af slíkri innlifun að harmur leikritsins endurómar í huga manns.

Á fjölunum í Þjóðleikhúsinu nýttist þessi hæfileiki Brynhildar enn betur. Til viðbótar, og kom á óvart, var hve söngur hennar var mikill og góður. Var stundum því líkast sem hin smá vaxna Edith Piaf væri komin þarna sjálf. Umbúnaður höfundar og uppsetning leikstjóra hefur vafalítið átt að skapa þá umgerð sem Edith lifði í. Myndarlegar konur veifuðu útlimum sínum ótæpilega og minntu á dansana í Rauðu myllunni sem var hluti af næturlífi Parísar.

Stóri dvergurinn, Toulouse-Lautrec, sem dvaldist langdvölum á meðal þessara hetja ástar og gleði, málaði mörg sígild listaverk úr lífi þeirra. Listaverk sem tjá bæði gleðina sem sýnd var og seld, og harminn og tregann sem inni fyrir bjó. Og þannig höfum við heyrt af París. Körlum og konum sem keyptu gleði og blíðu, og konum og körlum sem seldu það við „sanngjörnu verði.” Og Absint.

Setningin sem höfundurinn, Sigurður Pálsson, leggur í munn Marlene Dietrich þegar þær vinkonur hittast, „við erum við sjálfar aðeins í söngnum,” minnir á setningu Thrish, vinkonu Ritu, í Educating Rita, þegar hún reyndi sjálfsvíg: „Ég er sæl í tónlistinni, og ég er sæl í ljóðunum, en ég er ekkert þegar ég er ég sjálf.” Og þannig er nú lífið sjálfsagt hjá mörgum. Kannski svipuð reynsla og hjá Piaf, sem brann út og dó aðeins 47 ára gömul.

Hlutverk hljómsveitarinnar, leikur og framkoma, féll mjög vel inn í myndina. Þýðingar skáldanna á textunum liprir og músikalskir. Raddir sögumanna hefðu að ósekju mátt vera svolítið mildari og franskari. En að lokum: Barvó Brynhildur. Mjög góð skemmtun. Takk fyrir.

Gaman gæti verið að fá tónleika þar sem Brynhildur kæmi fram með hljómsveitinni og syngi lögin sem Edith Piaf lifði í og fyrir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.