Stórlaxar

Við sátum í kirkjunni, sautján saman, fólk úr Samhjálp og hlustuðum á útlendan mann búsettan á Íslandi prédika. Það gætti kvíða í huga mínum því að oft voru ræður manna þarna ekki með það markmið að hugga eða hughreysta beygt og brotið fólk. Miklu fremur virtust þær fullar af sjálfshóli, sjálfsaðdáun og jafnvel vanþóknun á þeim sem brákaðir ganga um í lífinu.

Maðurinn sem prédikaði hóf mál sitt með því að segja frá ferð sinni á sólarströnd. Hvað það hefði verið erfitt að vera á ströndinni og sjá allar þær berbrjósta konur sem þar gengu um eða flatmöguðu í sólinni. Var helst á honum að heyra að hann hafi orðið að liggja í sandinum með lokuð augun til þess að öll þessu brjóst, sem hann þó sagði að hefðu mörg verið mjög falleg, vektu ekki með honum varhugaverðar kenndir.

Næsti hluti ræðunnar var um lax. „Guð er eins og laxveiðimaður,” sagði ræðumaðurinn, „hann fer með stöngina sína til að veiða. Hann vandar sig og reynir að veiða stóru laxana. Guð vill bara stóra laxa. Hann vill ekki litla laxa. Gerum okkur grein fyrir því. Guð vill bara stóra laxa. Þess vegna eigum við að leggja okkur fram um að vera stórir laxar svo að Guð hafi áhuga á okkur. Allir menn eiga að vera stórir laxar. Það er vilji Guðs.”

Ræðan var ekki byggð upp fyrir hornsíli, eins og þennan sautján manna hóp úr Samhjálp. Við höfðum hvorki von né löngun til að verða stórir laxar. Og hvergi fundum við í munni frelsarans orð sem studdu þessar fullyrðingar ræðumannsins. Biblíuversið um hin mörgu híbýli í húsi föðurins kom upp í hugann

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.