Opinberir starfsmenn

Mér hafði verið gert að mæta á skrifstofu sýslumanns klukkan 14:24. Skrifstofan er á þriðju hæð. Gaf mig fram við símastúlku 14:15. Hún bauð mér að setjast. Var kallaður inn til fulltrúa á slaginu 14:24. Fulltrúinn er kona. Stór og myndarleg kona. Ég sagði til nafns. Hún bauð sæti. Hvarf síðan ofan í blaðabakka og leitaði að pappírum. „Hérna er þetta,” sagði hún og rétti sig upp.

„Þú skuldar hérna talsverða upphæð,” sagði hún. „Nei, það er engin skuld,” svaraði ég. „Nú, ertu búin að gera þetta upp” „Nei, það var engin skuld.” „Bréfið segir annað og ég á að gera fjárnám hjá þér.” „Það er engin skuld,” sagði ég enn. „Hvað áttu við með því,” spurði fulltrúinn. „Ég greiddi alltaf á réttum gjalddögum. Það er engin skuld.” Nú reis fulltrúinn á fætur og sýndist mér hún byrja að bólgna. „Af hverju erum við þá að senda þér þetta bréf?” „Það er góð spurning,” svaraði ég.

Eftir nokkurt mas sagði hún, „Ég verð að athuga þetta nánar.” Síðan fór hún fram. Eftir nokkrar mínútur kom hún til baka með útskrift á skuldastöðu minni. Þar var engin skuld á höfuðstól en nokkur þúsund í vexti. „Þú skuldar bara þessa vexti,” sagði fulltrúinn. „Nei. Það eru engir vextir. Ég greiddi alltaf á réttum tíma.” Konan stóð innan við skrifborðið og óþolinmæði var komin í fas hennar. „Ég get varla verið að gera fjárnám fyrir þessum vöxtum.” „Það eru engir vextir,” sagði ég.

Nú var fulltrúinn orðinn óþolinmóður. Mér sýndist hún stækka. Kom það fram í fasi og orðræðu. Ég reyndi að komast að með orð. Komst ekki að. Hún sagði mér að fara niður á fyrstu hæð og tala þar við innheimtustjóra. „Hún veit allt um þetta, ég hef ekkert um þetta að segja,” sagði fulltrúinn og rétti mér pappírana. Ég stóð upp og bjóst til að fara. Gat ekki á mér setið og sagði: „Hefur þú séð kvikmyndina House of Sand and Fog?” „Ég fer eiginlega aldrei í bíó,” sagi fulltrúinn með yfirlætistóni. „Hún er til á videóspólu líka.” „Ég horfi aldrei á vídeó.” „Þú hefðir gott af að sjá þessa mynd,” sagði ég og gekk út.

Þegar niður á fyrstu hæð kom spurði ég eftir innheimtustjóranum. Fékk viðtal við hana fljótlega. Sagði til nafns og rétti henni pappírana. Hér kvað við annan tón. Hún tók mér af ljúfmennsku. Skoðaði pappírana. „Þetta eru mistök,” sagði hún, „þetta bréf átti aldrei að senda. Ég felli vextina út samstundis,” sagði hún og gerði aðgerð í tölvunni sinni. Síðan leit hún á mig og sagði: „Þetta eru leið mistök. Ég biðst innilega afsökunar á þeim.” Ég stansaði við. Stóð upp og rétti henni höndina. „Þetta er óvenjulega elskuleg framkoma. Þakka þér innilega fyrir. Innilega,” sagði ég og fór tiltölulega léttur í spori út.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.