Á svona morgni

Það blasti við. Ekki um margt að velja. Nema að skila auðu. Í því felst ákveðin tjáning. Það er samt sorglegt. Embættið sem ætti að vera hvítt er nú orðið rautt. Og þar með komið niður á leðjuvöllinn. Maður finnur sig forsetalausan. Breytir svo sem ekki miklu. Það hefði samt lyft hjarta manns á hátíðarstundum að hafa í embættinu mann sem vekti með manni virðingu.

Í gærkvöldi kom hann, nýkosinn, fram í fjölmiðlum og kvartaði sáran undan því hvað margir hefðu verið vondir við sig. Nefndi til sögunnar atkvæðamikla stjórnmálamenn og fyrirmenn, án þess að nefna nöfn þeirra. Og svo auðvitað Morgunblaðið. Þetta sterka blað, sagði hann, sem hefir í allskonar greinum, ritstjórnar og öðrum, mánuðum saman unnið á móti sér. Það lá við að maður heyrði kjökur.

Og einn af þingmönnum Samfylkingarinnar gaf viðtal við sjónvarpsstöð, staddur fyrir framan Alþingishúsið, og talaði af vandlætingu um hina hræðilegu afturför Morgunblaðsins. Sem allt í einu, sagði hann, með einni forsíðufyrirsögn, hvarf til baka inn í gamla far stjórnmálanna. Því miður, sagði hann. Og það er skiljanlegt. Hann nefndi ekki Fréttablaðið og aðferðir þess.

Við spúsa mín ræddum kosningarnar í morgun. Henni finnst embættið hafa sett niður við innbrot forsetans í stjórnmálin. Við erum sammála um það. Mér hefur samt ekki fundist að það hafi verið í neinni sérstakri hæð að undanförnu. Og hvað Morgunblaðið varðar, þá er ég harla ánægður ef það tekur ákveðna afstöðu í málum og vegur þannig á móti hinni pressunni í landinu.

Við Ásta mín stefnum austur í Rangárþing. Ætlum að minnast genginna ástvina og gróðursetja birkiplöntur við leiði þeirra. Það hæfir á svona morgni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.