Ertu hvað?

Morgunblaðið er alltaf á leiðinni eitthvert. Stýrimenn þess taka ákvarðanir um stefnur. Lengst af höfum við átt samleið. Gerðist áskrifandi unglingur. Foreldrarnir keyptu Þjóðviljann og Alþýðublaðið. Sem þróttmikill ungur maður keypti ég öll dagblöðin og fylgdist með þjóðmálunum af afli. Sagði raunar Þjóðviljanum upp, öskureiður, þegar hann gekk alltof langt í að skíta miklum skít á útlending sem sest hafði að á Íslandi.

Svo man ég eftir páskum. Þá skrifuðu blaðamenn Moggans stundum um sjálfa sig. Sögðu af ferðum eða reynslum og eftirminnilegum atvikum. Ég minnist greina sem fylltu huga minn af tilfinningum ánægju og vináttu. Þið vitið hvernig texti getur verið þegar best lætur. Hann umvefur mann og kallar fram andrúm sem gerir tilveruna svo góða. Og Lesbókin. Þessa tilfinningu upplifi ég ekki oft núorðið.

Vafalaust breytast menn með aldrinum og viðhorfin. Og ný kynslóð eldar Moggann. Vandamál texta aukast með aldursmuni. En allur texti setur lesendur í nokkurn vanda.

Í Rabbi Lesbókar í morgun er grein eftir Þorvald Gylfason, prófessor. Þorvaldur gerir að umræðuefni þýðingu Hallgríms Helgasonar á Rómeó og Júlíu. Hann segir frá leikhúsmálfundi þar sem Hallgrímur „lýsti þvi í ræðu sinni, hversu honum hefði komið það á óvart að komast að því, hversu klámfengið þetta verk væri innst inni, og hvernig þessi viðureign hans við frumtextann, hefði leitt hann að þeirri niðurstöðu að Shakespeare væri mesti klámhundur heimsbókmenntanna…”

Við lestur þessa, rifjaðist upp fyrir mér hugsun og rökræða nokkurra gáfumanna fyrir allmörgum árum, hvar fjallað var um orð og texta og vandamál þeirra. Kom þar fram að helsta vandamálið við texta sé hvernig tekið er á móti honum. Eitt sé það sem höfundur hafi í huga og vilji tjá í orðum, rituðum eða töluðum, annað sé það hvað móttakandi, lesandi eða hlustandi, fái út úr orðunum. Komi þar margt til, svo sem menning, smekkur og viðhorf móttakandans.

Varð niðurstaðan sú að það væri móttakandinn, lesandi eða hlustandi, sem væri dóni eða klámhundur, en ekki höfundurinn. Því hvað svo sem höfundurinn hafi viljað segja eða tjá þá væri niðurstaðan ávallt í útkomunni sem móttakandinn fengi. Og þessvegna: Að vera eða ekki, klámhundur. Það er spurningin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.