Gullin regla

„Þú skalt elska….” Þannig hefst hið mesta boðorð Gamla testamentisins. „Þú skalt elska…” Það er einnig hið mesta boðorð Nýja testamentisins.. …Guð, og aðra menn eins og sjálfan þig. Þessi yndislega bók, Biblían, gengur út frá því að fólk elski sjálft sig fyrst og síðast. Stóra viðfangsefni þess sé að geta elska fleira en sjálft sig. Í því felist vöxtur og framför.

Mörg rök hníga að því að ást milli karls og konu byggist meira og minna á sjálfselsku. Þannig sé sjálfselskan ævinlega fyrsti og aðal krafturinn í lífi hvers og eins. Ritninginn gerir sér ljóst að sjálfselskan býður ákveðinni hættu heim. Sjálfhverfni sé böl sem leiði til ógæfu í samfélagi manna. Samfélagi. Og hún býður fólki að líta umhverfis sig og skoða tilveruna í stærra samhengi. Elskaðu Guð.

Með því að elska Guð losnar fólk frá einblíni á sjálft sig. Það eykur við sig þegar speki Guðs, viska hans og ráðleggingar fá rými í huga þess og taka að víkka hugsun og skilning. Með því að elska náungann eins og sjálfan sig tekur fólk jákvæða afstöðu með samfélaginu, með öðru fólki og uppfyllir hina gullnu reglu: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.”

Sumir snúa þessari reglu við og segja: „Gerðu aldrei öðrum það sem þú vilt ekki að þeir geri þér.” Munurinn á setningunum er mikill. Sú fyrri segir, gerðu, sem þýðir að þú átt að hefjast handa og hafa frumkvæði og með því móti kallar þú á svörun. Hin síðari, gerðu aldrei, býður upp á aðgerðaleysi, afskiptaleysi, sem að sjálfsögðu kallar ekki á neina svörun. Ritningin kallar á frumkvæði sem bætir samfélag manna.

„Kærleikurinn gjörir ekki náunganum mein. Þessvegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.” Orð Jesú Krists eru kærleiksorð. Þau miða að því tengja fólk saman. Orð hans og markmið beinast og að því að lyfta þeim upp sem fallið hafa. Til að ná markmiði sínu gerðist hann slíkum jafn. Tók þá á bak sér og lyfti þeim upp. Nú til dags finnast ekki margir sem taka fallna menn á bak sér. Þótt gumi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.