Hann Þórður gamli þraukar enn

Það fór hópur íslendinga til Grænlands til að steypa upp fjórar íbúðarblokkir um árið. Nánar tiltekið til Sisimiut. Í hópnum voru nokkrir kynlegir kvistir. En flestir bráðduglegir menn. Og vinnan og afköstin voru dásamleg. Fáeinir danir voru með í genginu. Þeir höfðu allt annan vinnutakt en íslendingarnir.

Einn íslenski karlinn í hópnum var með það, að hann hafi aldrei orðið veikur. Aldrei lent í slysi né slíkum vanda, nema kannske þarna um árið á togaranum. Þá fór hann úr liði. Það var árið eftir að hann fótbrotnaði, það var allt og sumt. Reyndar fór steypustyrktarjárn í gegnum lærið á honum þegar hann vann við að steypa upp blokk inni í sundum. Þannig raupaði karlinn. Og bætti við, áður en hinir bauluðu á hann, að það hafi hann séð það svartast þegar hann fékk flesnuna við Nýfundnaland. Í sex vikna túr.

Það var þetta með flensuna sem að vakti upp í mér vangaveltur um flensur. Fyrsta flensan sem ég kynntist var nefnilega flensan hans Þórðar Malakoff. „Þótt deyji aðrir dánumenn, Loff Malakoff, hann Þórður gamli þraukar enn.” Svo kom þessi yndislega runa sem margir heyktust á og misstu stjórn á tungunni.„Loff Malakoff. Mala. Lifir enn hann Malakoff. Þótt læknar vilji flensa í Malakoff, koff, koff. :,: Þá lifir Malakoff :,:

Það var þetta með flensuna í Malakoffinu sem kveikti stundum umræður. Menn voru ekki alltaf á eitt sáttir. Sjálfur tók ég að syngja Malakoffið kornungur. Náði taktinum og naut þess af afli. Hugsaði ekki út í flensið fyrr en mörgum árum seinna. Þetta rifjaðist upp í morgun. Við Ásta drukkum morgunkaffið okkar við horngluggann að vanda. Þetta var fyrsti morguninn sem ég gat talað, laus við hryglu, hæsi og ógeð eftir fjögurra daga flensu.

Og Þórður Malakoff lá í loftinu. Ég reyndi að syngja fyrir Ástu þótt hás væri. „Hann Þórður gamli þraukar enn,..” „Ha, Þórður hvað?” spurði Ásta. Og þá söng ég rununa um flensuna, Malakoff, koff, koff.” Og tengdi þessi gömlu söngkynni við flensu. En flensan hans Þórðar Malakoff er nú af dálítið öðrum toga. Flensan hans tengist nefnilega stórum hnífi og hvalskurði. Og hefur ekki nokkurn skapaðan hlut með inflúensu að gera.

En það er svo yndislegt að upplifa heilsuna koma aftur eftir nokkurra daga lasleika, að maður hreinlega kemst ekki hjá því að syngja dálítið. Og þá minna þau á sig, góðu atriðin frá bernskudögunum. Það er sagt um gamla karla.
Það sem hún Ásta má þola.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.