Raunir handboltamanns

Það er kannske ekki sanngjarnt að blanda sér í umræðu um handbolta á þessum dögum þegar meistararnir keppa. Samt er það svo að við þessir frumstæðu, setjumst fyrir framan imbann að loknum starfsdegi og fylgjumst með þvi þegar landinn tekur þátt í handboltakappleik.

Við reynum að horfa án þess að æsast um of og tökum að skilgreina fyrirbærið til að halda okkur rólegum. Rétt eins og við höfum eitthvað vit á handbolta. En Ásta upplifir þetta öðruvísi. Hún sest hjá mér í upphafi leiks og segir vá og flott og æðislegt. Svo stendur hún upp og fer. Segist ekki þola meira í bili. Hún verði svo æst. „Hvað er þetta kona,” segi ég…,

…og nú varð ég að þagna því það kom hættulegt tækifæri, „…þoliru ekki svona smá…”og þá kom mark og ég gleymdi að ljúka setningunni. Víst dáist ég að piltunum okkar. Þeir eru flestir snillingar og bardagahetjur. Frekar gagnrýni ég dómarana. „Iss, þessir dómarar. Þeir halda oftast með hinum.” En Ásta var farin og sest við tölvuna sína og sendi Bryndísi systur sinni póst.

Og nú kom íslenskt mark. „Heyrðiru þetta,” kallaði ég hástöfum. „Já, já, ég fylgist með.” Suma leiki unnum við og öðrum töpuðum við eins og alþjóð veit. Og maður skilur að margt þarf að koma til til þess að sigur vinnist. Og þetta vissu einnig hinir fornu vinir okkar í spekinni. Gefum Prédikaranum orðið og hlýðum að hans skýringar:

„Enn sá ég undir sólinni, að hinir fljótu ráða ekki yfir hlaupinu, né kapparnir yfir stríðinu, né heldur spekingarnir yfir brauðinu, né hinir hyggnu yfir auðnum, né vitsmunamennirnir yfir vinsældunum, því að tími og tilviljun mætir þeim öllum.”

Að leik loknum kom Ásta til mín og sagði blíðlega: „Unnum við, Óli minn?” „Já, elskan, við vinnum alltaf. Markatalan skiptir svo sem engu máli.”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.