Á launum við að gráta fyrir gullkálfinn



Það er hér um bil sama hvaða fjölmiðil fólk sækir fréttir í.
Allt sem sagt er snýst um gróða, hagnað og svindl.
Gróða og græðgi og græðgi og gróða.

Sagan endurtekur sig.
Sagan um gullkálfinn.
Allir dönsuðu í kringum hann.
Steyptan Gullkálfinn.

Og þeir sögðu:
„Þetta er Guð þinn…“
„Og fólkið var orðið taumlaust…“

Aldraður verkamaður horfir á.
Aldraður verkamaður undrar sig.
Gerir „Faðir vorið“ að besta vini sínum.
Annar aldraður verkamaður gerir
kríur vestur á nesi að vinum sínum.

Þeir hafa ekki skilning á Gullkálfinum.
Öldruðu verkamennirnir.
Hafa ekki skilning á græðgisbakteríunni.
Né fólkinu sem ræktar hana í hjartanu.
Ræktar hana í sálu sinni og hug.
Græðgisbakteríuna.

Né heldur fólkinu sem þiggur hundraðföld
laun aldraðra verkamanna
fyrir að gráta fyrir elskhuga
Gullkálfsins.

Svona er það í dag.
Svona var það í fornöld.
Og verður.
Þar til allt brennur.

HUGLEIÐING VERKAMANNS VII


NIETZSCHE eða NÍTSÉ

Frú Ásta sagði mér þessa ágætu sögu af bróður sínum,
séra Ólafi Oddi (1943- 2005), sem seinna varð prestur í Keflavík við góðan orðstír. Hann var fimm ára þegar hann úti í garði við hús fjölskyldunnar, á Skeggjagötu, gekk um og söng fullum hálsi og af hjartans einlægni, Ástarfaðir himinhæða og Ó, Jesú bróðir besti. Hafði nágrannakona kennt honum sálmana og dregur frú Ásta þá ályktun að þar hafi trúnni verið sáð í huga bróður síns.

Séra Ólafur sagði mér síðar að þegar Nietzsche var kenndur í Guðfræðideild Háskóla Íslands hafi hann upplifað andlegar þrengingar, farið út úr tíma og skokkað þrisvar sinnum kringum skólann og farið með Faðir vorið aftur og aftur.

Þetta kom í huga minn í gærkvöldi þegar ég tók fram bók Nítsés, Handan góðs og ills. Eignaðist hana á útgáfuárinu, 1994, og las. Ákvað nú að endurlesa kaflann Um trúmál, bls. 155. Ýmsar undirstrikanir voru þar frá fyrri lestri. Nú vissi ég ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. En eftir allnokkra íhugun, reyndar talsverða, fékk ég samúð með höfundinum.

Velti fyrir mér hvort þýðandinn, Arthúr Björgvin Bollason, maður sem sagt er um að tali betri þýsku en Þjóðverjar, væri nógu nákvæmur þegar hann valdi íslensk orð í stað þeirra þýsku. En að lesa þennan kafla Nietzsches er eins og að ganga á glerbrotum, finna þau skerast upp í iljarnar.

Plato komst að þeirri niðurstöðu að elskan, góðið sjálft, væri efst í samlífi manna og brenndi bækur sínar, skáldverk og leikrit, sem þó voru í hávegum höfð. Og Díótóma gaf elskunni hæstu einkunn í samtali við Sókrates. Descartes, þrátt fyrir sínar efasemdir um allt, hugsaði ekki síður svipað og Kierkegaard. Góðir höfundar.

Það er athygli vert að lesa skoðanir Nietzsches á trúmálum. Viðhorf hans eru einhvern veginn mannfjandsamleg og þykir mér ekki hæfa heimspekingi. Heimspekingur, finnst mér, að ætti fyrst og síðast að unna mannkyni. Auðvelda því lífið en ekki að strá glerbrotum undir iljar þess.

Alltaf þykir mér meistari minn frá Nasaret ofar og æðri en margir prinsar heimspekinnar. Á látlausan hátt sagði hann: „Elska skaltu“ og hann gekk um á meðal minnimáttar til að
uppörva þá.