HUGLEIÐING VERKAMANNS lX

Týndur sonur

Meðfylgjandi mynd er af styttu Jónasar Jakobssonar.

Hún stendur í Vatnaskógi KFUM manna.

Ég gerði mér ferð fyrir allmörgum árum til að taka mynd af henni. Hugleiðing mín er ekki um styttuna. Hún er um höfund hennar, Jónas Jakobsson.

Það var fyrir tæpum sextíu árum sem ég hitti Hvítasunnumennina fyrst eins og ég hef áður skrifað.

Það var austur í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð.

Ýmsir einstaklingar sýndu mér einlæga vináttu í þeim anda sem þeir lifðu lífinu. Frelsaðir fyrir Jesúm Krist og skírðir í heilögum anda. Ég var týndur sonur og fólkið sem ég mætti þar fagnaði yfir mér eins og konan sem fann týndu drökmuna sína. Allt er þetta ljóslifandi í huga mínum þessi árin.

Jónas hafði vinnustofu á Klappastíg, neðan við Hverfisgötu, í Reykjavík. Ég heimsótti hann þangað nokkur skipti. Hann var

Mjög einlægur trúmaður og talaði um Krist eins og einn af vinum sínum. Þannig voru Hvítasunnumenn í þá daga.

Þeir höfðu gert Jesú að einlægum vini sínum og hann þá.

„Þér eruð vinir mínir,…“ segir í guðspjallinu.

Og Jónas sem var allur hvítur af gifsi þar sem hann mótaði manns höfuð tók mér sem einum af sínum bestu vinum. Ég var óvanur slíkum vinahótum. Svo ræddum við málin. Ræddum trúmálin og sérstöðu þeirra manna sem mynduðu söfnuðinn í þá daga. Þau einkenndust af mannelsku. Það var notalegt að upplifa þann anda.

Ég var kominn inn úr kulda. Harðneskjulegu andrúmi. Og hin andlega útgeislun fólksins lék um mig eins og ilmur. Samtal okkar var mjög biblíulegt. Hann talaði um Krist eins og kæran vin og lærði að líta þannig á Jesúm. Tók að nálgast þá hugsun að einnig ég gæti komist í vinahópinn: „Þér eruð vinir mínir…“ stendur í guðspjalllinu og: „ …og þann sem kemur til mín, mun ég allsekki brott reka.“

Þetta ræddum við. Hann sýndi mér þolinmæði þegar ég spurði eins og kálfur og svaraði mér af einlægni. Þetta kemur upp í huga minn núna þegar Kotmót Hvítasunnumanna er nýlokið. Ég var þar í mörg ár og frú Ásta og börnin okkar. Það voru góðir tímar.

Svo tók ný kynslóð við. Henni fylgdi ekki sama tegund af elsku.