Hugleiðingar verkamanns viii

AÐ FINNA VALD SITT AUKAST

Víst geri ég mér grein fyrir því að dirfska mín er óþarflega mikil þegar ég skrifa hugleiðingar mínar hér. Ekki finn ég samt fyrir neinni valdaaukningu í því samhengi. Heldur er hvötin komin til af samúð og samkennd með almúganum sem ég er hluti af.

Spekingurinn Nietzsche, eða Nít-c, spurði: „Hvað er hamingja?“ og svaraði sjálfur:  „Að finna vald sitt aukast.“

Í grúski mínu þessi dægrin minnist ég þess hve lengi ég stansaði við þessa setningu. Síðan eru mörg ár.

Þá lagði frá mér bókina og setti heilavélina í gang. Eða kvörnina, hvað sem þar nú er. Fann út að margar hliðar eru á málinu. Ein er sú að finna getu sína aukast. Önnur er sú að fá vald yfir öðru fólki. Ofurmenni er líka afsprengi hugsunarinnar, hvar einstaklingur verður brjálaður í hugmynd um sjálfan sig. Dæmin eru því miður allmörg gegnum sögu mannkyns en í samtíð okkar er  nærtækt að nefna þær óværur, Adolf Hitler og Pútin.

Í gær endurlas ég bók Victors Frankl: „Leitin að tilgangi lífsins.“ Hvet ég fólk til að lesa hana þó ekki sé nema til að hugleiða brjálsemi Pútíns í Úkraínu. Víst er það ekki eini blóðvöllurinn, og því miður hafa alltof margir þjóðhöfðingjar notað valdeflingu sína til að kremja lífið úr almúgafólki.

Í bók Victors Frankl segir: „Helförin og öll önnur þjóðarmorð, sem framin hafa verið í aldanna rás, sanna að „einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“

Yfirburðir Ktrist, Jesú frá Nasaret felast m.a. í orðum hans:

„Elska skaltu……náungann eins og sjálfan þig.“

Ég lýk þessari hugleiðingu með tilvísun í ritgerð Vilhjálms Árnasonar, heimspekings og siðfræðings. Það er afar góð lesning:

Á launum við að gráta fyrir gullkálfinn



Það er hér um bil sama hvaða fjölmiðil fólk sækir fréttir í.
Allt sem sagt er snýst um gróða, hagnað og svindl.
Gróða og græðgi og græðgi og gróða.

Sagan endurtekur sig.
Sagan um gullkálfinn.
Allir dönsuðu í kringum hann.
Steyptan Gullkálfinn.

Og þeir sögðu:
„Þetta er Guð þinn…“
„Og fólkið var orðið taumlaust…“

Aldraður verkamaður horfir á.
Aldraður verkamaður undrar sig.
Gerir „Faðir vorið“ að besta vini sínum.
Annar aldraður verkamaður gerir
kríur vestur á nesi að vinum sínum.

Þeir hafa ekki skilning á Gullkálfinum.
Öldruðu verkamennirnir.
Hafa ekki skilning á græðgisbakteríunni.
Né fólkinu sem ræktar hana í hjartanu.
Ræktar hana í sálu sinni og hug.
Græðgisbakteríuna.

Né heldur fólkinu sem þiggur hundraðföld
laun aldraðra verkamanna
fyrir að gráta fyrir elskhuga
Gullkálfsins.

Svona er það í dag.
Svona var það í fornöld.
Og verður.
Þar til allt brennur.

HUGLEIÐING VERKAMANNS VII


NIETZSCHE eða NÍTSÉ

Frú Ásta sagði mér þessa ágætu sögu af bróður sínum,
séra Ólafi Oddi (1943- 2005), sem seinna varð prestur í Keflavík við góðan orðstír. Hann var fimm ára þegar hann úti í garði við hús fjölskyldunnar, á Skeggjagötu, gekk um og söng fullum hálsi og af hjartans einlægni, Ástarfaðir himinhæða og Ó, Jesú bróðir besti. Hafði nágrannakona kennt honum sálmana og dregur frú Ásta þá ályktun að þar hafi trúnni verið sáð í huga bróður síns.

Séra Ólafur sagði mér síðar að þegar Nietzsche var kenndur í Guðfræðideild Háskóla Íslands hafi hann upplifað andlegar þrengingar, farið út úr tíma og skokkað þrisvar sinnum kringum skólann og farið með Faðir vorið aftur og aftur.

Þetta kom í huga minn í gærkvöldi þegar ég tók fram bók Nítsés, Handan góðs og ills. Eignaðist hana á útgáfuárinu, 1994, og las. Ákvað nú að endurlesa kaflann Um trúmál, bls. 155. Ýmsar undirstrikanir voru þar frá fyrri lestri. Nú vissi ég ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. En eftir allnokkra íhugun, reyndar talsverða, fékk ég samúð með höfundinum.

Velti fyrir mér hvort þýðandinn, Arthúr Björgvin Bollason, maður sem sagt er um að tali betri þýsku en Þjóðverjar, væri nógu nákvæmur þegar hann valdi íslensk orð í stað þeirra þýsku. En að lesa þennan kafla Nietzsches er eins og að ganga á glerbrotum, finna þau skerast upp í iljarnar.

Plato komst að þeirri niðurstöðu að elskan, góðið sjálft, væri efst í samlífi manna og brenndi bækur sínar, skáldverk og leikrit, sem þó voru í hávegum höfð. Og Díótóma gaf elskunni hæstu einkunn í samtali við Sókrates. Descartes, þrátt fyrir sínar efasemdir um allt, hugsaði ekki síður svipað og Kierkegaard. Góðir höfundar.

Það er athygli vert að lesa skoðanir Nietzsches á trúmálum. Viðhorf hans eru einhvern veginn mannfjandsamleg og þykir mér ekki hæfa heimspekingi. Heimspekingur, finnst mér, að ætti fyrst og síðast að unna mannkyni. Auðvelda því lífið en ekki að strá glerbrotum undir iljar þess.

Alltaf þykir mér meistari minn frá Nasaret ofar og æðri en margir prinsar heimspekinnar. Á látlausan hátt sagði hann: „Elska skaltu“ og hann gekk um á meðal minnimáttar til að
uppörva þá.

GEF HARMI RÖDD

Við, frú Ásta, lukum jólagjafakortinu nýlega. Fengum þessa stórmerkilegu bók LÍKAMINN GEYMIR ALLT, eftir Besser Van Der Kolk.

Þetta er mikil bók sem ekki verður gleypt á einu kvöldi eins og léttmetið sem flæðir yfir allt.

Að venju hóf ég samlífið við bókina með þukli og strokum. Hún hvorki létt á höndum, liðlega 500 síður, né í huga.  Eins og venjulega byrjaði ég á því að skoða atriðisorðaskrána til að sjá hvort vinir mínir einhverjir væru þar. Þegar ég fann William James á kvað ég að bókin félli mér.

En það sem mig langaði að nefna er sú skemmtilega aðferð höfundar af byrja marga kaflana með tilvitnunum í aðra fræðimenn og skáld. Fyrst greip mig setning Williams Shakespeare, úr Makbeð:

„Gef harmi rödd, sé rómlaus sorgin mesta, neyðir hvísl hennar hjartað til að bresta.“ (Þýð.. Helgi Hálfdanarson)

Þetta bergmálaði strax biblíuorðið: ,,Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég…“

,,Mesta uppgötvun minnar kynslóðar er að manneskjur geta breytt lífi sínu með því að breyta viðhorfum sínum.“ William James og aftur: „Maðurinn hefur jafn mörg félagsleg sjálf og einstaklingarnir sem þekkja hann.“

Það vekur alltaf athygli mína þegar til mín berast fræðirit, að þar er tilnefndur fjöldinn allur af fræðimönnum margra kynslóða. Í þessari bók finn ég ekki nafn Plató né nafn Jesú frá Nasaret. Það gerir bókina verðminni í mínum huga, þó það að sjálfsögðu geri bókinni ekkert mein.

Það var þó Jesús frá Nasaret sem bjargaði lífi mínu með sínum mannelskandi anda og milljónum annarra í gegnum aldirnar og sú reynsla verður aldrei þögguð.

Shakespeare orðar þetta yndislega:  „GEF HARMI RÖDD…“

Og Biblían: „MEÐAN ÉG ÞAGÐI TÆRÐUST BEIN MÍN..“

Þetta segir vikusálin mín í dag.