Hugleiðingar verkamanns viii

AÐ FINNA VALD SITT AUKAST

Víst geri ég mér grein fyrir því að dirfska mín er óþarflega mikil þegar ég skrifa hugleiðingar mínar hér. Ekki finn ég samt fyrir neinni valdaaukningu í því samhengi. Heldur er hvötin komin til af samúð og samkennd með almúganum sem ég er hluti af.

Spekingurinn Nietzsche, eða Nít-c, spurði: „Hvað er hamingja?“ og svaraði sjálfur:  „Að finna vald sitt aukast.“

Í grúski mínu þessi dægrin minnist ég þess hve lengi ég stansaði við þessa setningu. Síðan eru mörg ár.

Þá lagði frá mér bókina og setti heilavélina í gang. Eða kvörnina, hvað sem þar nú er. Fann út að margar hliðar eru á málinu. Ein er sú að finna getu sína aukast. Önnur er sú að fá vald yfir öðru fólki. Ofurmenni er líka afsprengi hugsunarinnar, hvar einstaklingur verður brjálaður í hugmynd um sjálfan sig. Dæmin eru því miður allmörg gegnum sögu mannkyns en í samtíð okkar er  nærtækt að nefna þær óværur, Adolf Hitler og Pútin.

Í gær endurlas ég bók Victors Frankl: „Leitin að tilgangi lífsins.“ Hvet ég fólk til að lesa hana þó ekki sé nema til að hugleiða brjálsemi Pútíns í Úkraínu. Víst er það ekki eini blóðvöllurinn, og því miður hafa alltof margir þjóðhöfðingjar notað valdeflingu sína til að kremja lífið úr almúgafólki.

Í bók Victors Frankl segir: „Helförin og öll önnur þjóðarmorð, sem framin hafa verið í aldanna rás, sanna að „einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“

Yfirburðir Ktrist, Jesú frá Nasaret felast m.a. í orðum hans:

„Elska skaltu……náungann eins og sjálfan þig.“

Ég lýk þessari hugleiðingu með tilvísun í ritgerð Vilhjálms Árnasonar, heimspekings og siðfræðings. Það er afar góð lesning: