GEF HARMI RÖDD

Við, frú Ásta, lukum jólagjafakortinu nýlega. Fengum þessa stórmerkilegu bók LÍKAMINN GEYMIR ALLT, eftir Besser Van Der Kolk.

Þetta er mikil bók sem ekki verður gleypt á einu kvöldi eins og léttmetið sem flæðir yfir allt.

Að venju hóf ég samlífið við bókina með þukli og strokum. Hún hvorki létt á höndum, liðlega 500 síður, né í huga.  Eins og venjulega byrjaði ég á því að skoða atriðisorðaskrána til að sjá hvort vinir mínir einhverjir væru þar. Þegar ég fann William James á kvað ég að bókin félli mér.

En það sem mig langaði að nefna er sú skemmtilega aðferð höfundar af byrja marga kaflana með tilvitnunum í aðra fræðimenn og skáld. Fyrst greip mig setning Williams Shakespeare, úr Makbeð:

„Gef harmi rödd, sé rómlaus sorgin mesta, neyðir hvísl hennar hjartað til að bresta.“ (Þýð.. Helgi Hálfdanarson)

Þetta bergmálaði strax biblíuorðið: ,,Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég…“

,,Mesta uppgötvun minnar kynslóðar er að manneskjur geta breytt lífi sínu með því að breyta viðhorfum sínum.“ William James og aftur: „Maðurinn hefur jafn mörg félagsleg sjálf og einstaklingarnir sem þekkja hann.“

Það vekur alltaf athygli mína þegar til mín berast fræðirit, að þar er tilnefndur fjöldinn allur af fræðimönnum margra kynslóða. Í þessari bók finn ég ekki nafn Plató né nafn Jesú frá Nasaret. Það gerir bókina verðminni í mínum huga, þó það að sjálfsögðu geri bókinni ekkert mein.

Það var þó Jesús frá Nasaret sem bjargaði lífi mínu með sínum mannelskandi anda og milljónum annarra í gegnum aldirnar og sú reynsla verður aldrei þögguð.

Shakespeare orðar þetta yndislega:  „GEF HARMI RÖDD…“

Og Biblían: „MEÐAN ÉG ÞAGÐI TÆRÐUST BEIN MÍN..“

Þetta segir vikusálin mín í dag.