Ich spreche nicht Deutsch

Þegar ég kom út í morgun í þetta yndislega mjúka veður, þokusúld og stafalogn og húsin í grenndinni dulúðug og trén og tækin á leikvellinum, þá andaði ég að mér þessari blessun sem felst í slíkum morgnum og hélt niðri í mér. Og andvarpaði í einskonar aðdáun, eða hvernig ég á að orða það. Flaug í huga minn titill á bók eftir Francoise Sagan, ,,Dáið þér bRahms“? Hefði því getað sagt við næsta mann, ef það hefði verið nokkur næsti maður: ,,Dáið þér svona morgna?“

Svo rifjaðist upp fyrir mér morgun í Bremerhavem. Við vorum þar á Þormóði goða með karfa frá Nýfundnalandi. Ég fór í gönguferð snemma morguns og veðrið var eins og hér í morgun. Síðan hef ég kallað svona veður meginlandsveður þótt ég hafi ekkert fyrir mér í því. Fólk var á leið í vinnu, gangandi og bílandi. Þó var enginn asi. Allir stefndu inn í miðbæinn. Ég í hina áttina.

Tveir menn um þrítugt komu gangandi á móti mér á breiðri gangstétt og voru með tvo Doberman hunda í taumi. Þeir voru með munn körfu og skottið stýft. Afskaplega falleg dýr, glansandi feldur, sperrt eyru og vingjarnlegt augnaráð. Ég gat ekki á mér setið og tók að dásama hundana við mennina. Þeim líkaði það vel og ég þóttist tala á ensku og þeir á enskri þýsku. Þetta gekk nokkrar í mínútur.

Svo vildu þeir kanna deili á mér og þá kom heimavarnarliðið upp í mér og ég sagði:

,,Ich spreche nicht Deutsch,“ og hélt leiðar minnar.
Þetta var árið 1960.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.