Þrjú þúsund bílastæði

Alla ævi hafði ég þekkt hann, svo til. Alveg frá því að við ókum saltfiski til kvennanna sem vöskuðu hann. Það var vestur á Harðræðisholti, minnir að verkunarhúsið héti Baldursheimar. Þarna lærðum við grófan orðaforða af eldri konunum. Þær voru gegnblautar með hvítar gúmmí svuntur og gusugangurinn mikill. Í dagslok voru þær uppgefnar og þöglar. Kjöguðu eins og þústir heim á leið í slyddu og slubbi. Við höfðum samúð með þeim.

Næst lágu leiðir okkar saman við lagningu holræsis við verðandi Ægissíðu. Þá var grafinn mikill skurður yfir túnin frá Þormóðsstöðum fram hjá Garði og vestur í Skjól. Við áttum það til að taka tarnir á tungumáli kvennanna í fiskvaskinu. Það var hressandi í byljunum. Svo skildi leiðir. Þar til fyrir svo sem mánuði síðan. Sextíu og fimm árum seinna. Þá sá ég mann álengdar á bíl með kerru aftan í vera að glíma við að bakka í stæði í miðbæ Reykjavíkur. Ég þóttist þekkja hann frá fyrri árum.

Fjórum dögum seinna sá ég hann svo bakka kerrunni í stæði í Kópavogi. Það var á stóru bílastæði þar sem stæðin voru merkt. Hann vandaði sig mjög. Mældi loks bilið frá hvítu merkingunum að dekkjunum á kerrunni. Þá ákvað ég að spjalla við hann.

„Sæll Doddi. Manstu eftir?“
„Já, sæll. Auðvitað.“
„Ertu enn að vinna, svona gamall?“
„Já, já. Ég bakka í stæði.“
„Bakkar í stæði?“
„Þrjú þúsund stæði.“
Hann gekk umhverfis bílinn og kerruna með málband og mældi.
„ER þetta full vinna?“
„Nei, ég hef minnkað við mig. Vinn bara hálan daginn.“
„Vel launað?“
„Ég tek ekki laun.“
„Ekki?“
„Nei, það fer allt í skerðingar.“

Nú fór hann inn í bílinn og mjakaði kerrunni örlítið. Kom út og mældi. Kinkaði kolli.
„Nú er þetta komið. Ég verð að halda af stað. Gaman að hitta þig.“
„Já, sömuleiðis.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.