Perlur

Við næsta borð sátu eldri hjón. Þau voru fremur smávaxin og höfðu keypt sér langloku og kaffi og karlinn átti erfitt með að stinga gafflinum í langlokuna því skorpan var svo hörð og mikill skjálfti í höndunum á honum.

En hann var einarður og með lagni tókst honum að ná bita af brauðinu og færa hann upp í munninn á sér. Svo tók hann langan tíma í að tyggja og lét höndina hvíla við hliðina á diskinum með lófann upp. Við borðið fjær þeim voru tvær konur. Þær töluðu dönsku, sátu andspænis hver annarri og grúfðu sig yfir diskana og töluðu ákaflega.

Önnur þeirra sat með bakpokann á bakinu. Svo voru tvær yngri konur við þar næsta borð. Þær voru glaðlegar og hlógu á milli og það var ánægju glampi í augum þeirrar sem snéri að mér. Svo kom runa af smávöxnu ungu Asíufólki og fyrir þeim gekk piltur með digital upptökuvél í gangi og safnaði öllu í hana sem fyrir augu hans bar.

Og þau völdu sér langt borð og skvöldruðu einhver ósköp og þannig var fólk við hvert einasta borð út með öllum glerveggnum og fólk að koma og fólk að fara og það var ys og þys og svartklæddar stúlkur sem söfnuðu tómum diskum og bollum og hnífapörum og settu á vagn sem þær ýttu á undan sér og strax kom nýtt fólk í sætin sem losnuðu.

Við vorum að tala um bækur þegar þetta var og vorum búin með súpuna og salatið og sumir fengu sér ábót og viðbótar brauðbollu. Það er svo gaman að tala um bækur við fólk sem ann bókum og öll sögðu frá þeim bókum sem þau voru að lesa og þannig möluðum við í meira en tvo klukkutíma og ræddum ósvífnina í pólitíkinni og bíla og bíldekk og kraðak á ferðamannastöðum og allir komust að með málefni og stundum var skellihlegið.

Svo fengum við kaffi í lokin nema þeir sem ekki drekka kaffi þeir fengu glært gos. Mér var lánuð bókin Páls Skúlasonar um Hugsunina sem stjórnar heiminum og TMM 2/2014.

Þetta var um hádegið í dag. Okkur frú Ástu var boðið í súpu og salat og sátum við þarna ásamt þrem afkvæma okkar og vinsemdin umvafði okkur og stemningin var líkari því að við foreldrarnir værum börn í fylgd með fullorðnum. Og nutum við þess af heilum hug og gleðjumst yfir þessum perlum okkar í Perlunni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.