Á degi bókarinnar – Þeir brostu í gegnum tárin –

„„Hvers leitið þér, herra minn, í tónlistinni?“
„,Ég leita iðrunar og grátstafa.“
Þá opnaði hann dyrnar upp á gátt og stóð skjálfandi á fætur. Hann tók herra Marais opnum örmum og bað hann að gera svo vel að koma inn. Þeir byrjuðu á því að þegja.“

Samtal þeirra herra Sainte Colombe og herra Marais í síðasta kafla bókarinnar Allir heimsins morgnar, eftir Pascal Quignard, er góðgæti sem ég les oft á hverju einasta ári. Oft. Og ég fyllist einlægu þakklæti til þýðandans, Friðriks Rafnssonar, sem gerir einföldum verkamanni kleift að lesa bók, – bækur – af öðrum tungumálum.

Samtal þeirra tónlistarmannanna í umræddum kafla vísar veg að kjarna máls, þegar allt hismi er fokið burt. Út frá trú minni og að loknum háheilögum dögum kyrruviku og upprifjunar á orðum Ritninganna um krossfestingu Krists, mætti umorða samtal þeirra félaga og gera að sínu eigin samtali í huganum:
„Hvers leitar þú í trúnni?“
,,Ég leita iðrunar og grátstafa.“

Síðar í kafla bókarinnar segir: „Herra Marais færði kertastjakann nær nótnaheftinu. Þeir skoðuðu það, lokuðu heftinu, settust, stilltu saman hljóðfærin. Herra Sainte Colombe taldi inn meðan þeir settu fingurna í réttar stellingar. Þannig léku þeir Grátstafinn. Þegar gömburnar tvær tóku að hljóma, horfðu þeir hver á annan. Þeir grétu.

Birtan sem barst niður um þakgluggann var orðin gulleit. Þeir brostu í gegnum tárin sem runnu hægt niður eftir nefinu á þeim, niður kinnar þeirra, niður á varir þeirra.

Dagur bókarinnar er í dag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.