Ekki man ég hvað langt er síðan ég fór í strætó síðast. Hátt í tuttugu ár sennilega. Mér finnst strætó óvinveittur mér. Eins og margar opinberar stofnanir. Aftur á móti gerði ég mér það til tilbreytingar upp úr hádegi í dag að leggja bílnum mínum í borgarhverfi sem ég veit svo sem ekkert um. Fjarri mínum slóðum. Og ég labbaði dálítinn spöl frá bílnum og settist á bekk í strætóskýli. Það var ekki rigning.
Ekki hafði ég tekið sérlega eftir manni sem sat í hnipri í skýlinu. Þetta var ósköp grannur maður, klæddur bláum jakka með kragann brettan upp og sixpensara á höfðinu og derið niður í augum. Svo kom strætó öslandi, hægði á sér og stansaði og sagði hviss hvass þegar hann opnaði dyrnar. Enginn steig út og enginn steig inn. Og vagninn sagði hviss hvass og seig niður þegar hann tók af stað aftur. Ég hélt áfram að sitja í skýlinu og hinn maðurinn líka. Nú fór að rigna.
Sem ég star þarna og hugsaði eitt og annað fannst mér ég heyra sérkennileg hljóð í manninum. Ósköp lág. Ekki beint suð og þó einhverskonar. Ég einbeitti mér að því að horfa á krakka handan við götuna. Þau voru á brettum og það small og skall í þeim og krakkarnir voru hróðugir þegar þeir léku listir á gangstéttarbrúninni. Vá maður, hrópaði einn strákurinn þegar hann komst upp á gangstéttina á brettinu án þess að detta og stelpuskott í hópnum klappaði saman höndunum.
Náungi minn í strætóskýlinu hnipraði sig enn meira saman og nú réri hann fram í gráðið. Umlið varð ögn hærra. Ég stóð upp, engum háður og sæmilega bjartsýnn og bjóst til að fara. Það var sem ég heyrði ekkahljóðin.