Fagraskóg og Hvítadal og Katla

Við sátum við Horngluggann í morgun og sötruðum kaffið okkar. Það var um hálf sjö leytið. Og minntumst Baldurs Óskarssonar sem nýlega er fallinn frá og við rifjuðum upp þegar við vorum kornung hjón og ákaflega ástfanginn og lásum Hitabylgju, og í framhaldi töluðum við um andrúmsloftið í samtímanum okkar og sögðum: Manstu? Já, hvort ég man.

Og rýmið við Horngluggann fylltist af bókmenntalegum unaði sem kveikti blik í augum. Og við nefndum ótal rithöfunda og skáld og bækur sem glæddu líf okkar á þeim árum. Manstu? Já, hvort ég man. Laxness og Indriði og Kristmann, Guðmundur Dan og Jón úr Vör og Jón Óskar, Guðmundur á Kirkjubóli, meiri spámenn og minni spámenn, Jónas stýrimaður, Ingimar Erlendur, og ég veit ekki hvað og hvað. Samtíðarmenn.

Og við héldum áfram að rifja upp nöfn skálda og bóka. Fagraskóg og Hvítadal og Katla, sem sveimuðu í andrúmsloftinu á þeim tíma sem við lifðum þá ástfanginn upp fyrir haus. Komma og íhald í bókmenntum, Mál og menningu og Almenna bókafélagið og blóði litaðar deilur um það hver væri skáld og hver ekki. Hver hefði drepið mann og hver hefði ekki drepið mann. Hver fengi listamannalaun og hver fengi ekki listamannalaun.

Svo bættum við kaffi í bollana og það var komið fram á morguninn og lífið ljómaði og hjörtun voru þakklát fyrir skáld og bækur. Og eru það enn. Og eru það ann.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.