Hver er ég – og ef svo er, hve margir?

Hinn óviðjafnanlegi snillingur, Oscar Wilde, skildi eftir sig fjölda málshátta eða snjallyrða, hvað sem við kjósum að kalla það. Margt má um Oscar þennan segja og ekki síst um meðferð samtíðarmanna hans á honum og afleiðingar þess. En það er önnur saga.

Mér varð hugsað til Oscars í morgun en þegar ég vaknaði, þokkalega hvíldur eftir nóttina, breiddi úr sér inni í hausnum á mér hugsun sem raunar hefur sótt þangað reglulega árum saman og hengt mig upp á þráð, eins og stundum er sagt. Hver er ég?

Eftir starfslokaaldur hefur ásókn hugsunarinnar „hver er ég“ ágerst. Og þegar hún er hvað áleitnust fer ég inn til bókanna minna, innhverfur, og tala við þær. Ég á talsvert af merkilegum bókum, það er að segja, bókum sem einskonar meiriháttar menn hafa gert bandalag um að flokka sem merkilegar.

Í morgun ásakaði ég þær. Sagði þeim hreint út að þrátt fyrir ást mína á þeim og dásamlegt samfélag okkar áratugum saman þá héngi ég á þræði í dag. Hin sálin í mér herjaði á mig og ylli mér óþoli og það væri þeim að kenna. Þótt margar þeirra hefðu stappað í mig stálinu í gegnum árin og fullvissað mig um að „ég væri“ þá héldi það ekki í dag.

Það var þarna sem eitt snjallyrða Oscars Wild skaut upp kollinum: ,,Ég er ekki nógu ungur til að vita allt.“ Einmitt. Og þannig er þetta með höfunda bóka. Þeir pæla og pæla og skrifa og skrifa eins og allur sannleikur sé í hendi þeirra. Virðast ekki hafa gert upp við sig að það sem sýnist vera sannleikur þegar á yngri árum manna er verður einskonar hálf – eða kvartsannleikur með árunum.

Hvað um það. Í litlum stafla sem ég umstaflaði í morgun birtist bók sem ber heitið „Hver er ég og ef svo er, hve margir?“ Titill hennar fellur vel að morgunóróa mínum og við hæfi að grauta í henni í dag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.