Bráðum fáum við að kjósa

Oft hef ég velt því fyrir mér síðan smíðuð var ný stjórnarskrá með öllu því álagi og umstangi sem því fylgdi, hversvegna alþingi gat ekki fagnað henni og samþykkt hana.

Í mínum huga er það svo að alþingismenn eru kosnir af þjóðinni til að vinna fyrir hana. Þau sem bjóða sig fram til alþingis eru að mestum hluta venjulegt fólk þótt einhver munur sé á menntun og lífsreynslu. Það var eins með stjórnlagaráð, þar sat eiginlega samskonar fólk og var einnig kjörið af þjóðinni.

Það sem mér finnst erfitt að skilja til fullnustu er hversvegna venjulega fólkið á alþingi telur sig þess umkomið að hafna tillögum og vilja venjulega fólksins í stjórnlagaráði. Aldrei hefur mér virst fólki aukast vit við það að komast á alþingi. Nema síður sé. Og miðað við vinnubrögðin þar síðustu misserin bendir svo ótal margt til þess að þar ráði ekki vitsmunir ferð, heldur eitthvað allt annað.

Og hvað skyldi nú þetta allt annað vera? Fólk velti því fyrir sér á þessum dögum fram að kosningum, þegar frambjóðendur moka sykursætu tali yfir landslýð, hvort ástæða sé til að kjósa enn og aftur það fólk á þing sem margsannað hefur að vinnubrögð þess mótast af hagsmunum fárra á kostnað almennings, – almennings sem kaus það til að gæta hagsmuna allra.

Það er auðvitað kominn tími til að hlusta á nýju raddirnar og gefa þeim tækifæri til að sína hvað í þeim býr, þótt fjöldi þeirra lofi ekki neitt sérstaklega góðu. Nokkuð víst er að gömlu flokkarnir munu halda sig við sama heygarðhorn og hingað til.Og æskilegt er að breyta því.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.