Minning: Kristján Reykdal.

Þeir falla frá einn og einn hvítasunnumennirnir, trúarhetjurnar, sem gáfust meistaranum Jesú frá Nasaret á fyrri hluta síðustu aldar. Fólk sem steig heilshugar yfir þröskuldinn til þeirrar tilveru sem frelsarinn nefndi „lífið“. Og gengu með honum upp frá því, lifðu með honum í Orðinu, daglegum lestri þess og bæn og vitnuðu tæpitungulaust eins og meistarinn væri í för með þeim. Og auðvitað var hann í för með þeim.

Þeir tóku gítar eða ferðaorgel við hvert gefið tækifæri og sungu af gleði og fögnuði og lyftu sál sinni og tilheyrenda sinna, í sunnudagaskólum og öðrum samkomum, með glaðværð og trúarvissu: „Já, frelsarinn er hér…“ sungu þeir og börn og fullorðnir tóku undir og smituðust af einlægri gleðinni sem geislaði frá þeim. Þannig man ég eftir Kristjáni Reykdal syngjandi tvísöng með Haraldi Guðjónssyni í Fíladelfíu í Keflavík, „Já, frelsarinn er hér“.

Eins og fjölda genginna bræðra og systra í hvítasunnuhreyfingunni minnist ég Kristjáns Reykdal með virðingu, fólks sem leitaði fyrirmyndar í lærisveinum Jesú eins og guðspjöllin segja frá þeim, fiskimönnunum, tollheimtumönnunum og „bersyndugu“ konunum sem meistarinn frá Nasaret samneytti eins og jafningjum. Fólks sem eignaðist undursamlega trúarreynslu á sínum helgustu stundum, dýrmæta ólýsanlega reynslu sem hóf anda þess hátt upp fyrir hversdagslegt mas og þras og bjó þeim andlegan griðastað, híbýli, sem það leitaði í í glímunni við lífið. Og miðluðu af þessari reynslu sinni til skemmra kominna á einföldu tungumálli lærisveinanna. Mörgum til blessunar.

Nú er Kristján Reykdal kominn heim í „dýrðina“ á fund blessaðs frelsarans síns, Jesú frá Nasaret. Og er nú kominn í kórinn með elskuðum vinum úr hvítasunnuhreyfingunni, vinum sem áður voru farnir „heim“. Það er auðvelt að ímynda sér ljómann á andlitum þeirra, bræðra og systra, við endurfundina, syngjandi
við Hörpustrengi: „Lofa Guð og lambið, lífið sem oss gaf.“

Útför Kristjáns fer fram frá Fíladelfíu í Reykjavík í dag. kl. 1500.

Óli Ágústsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.