Reyfarakaup

Í morgun, snemma eins og flesta morgna, sátum við kornin við horngluggann og sötruðum sjóðheitt kaffið. Svart og sykurlaust. Það var rökkur og við ræddum bækur.

Um þessar mundir er allt á kafi í bókum. Hvert sem litið er, hvar sem hlustað er og útgefendur hrópa. Við höfum frekar ólíkan bókasmekk. Hjónin. Og hún er duglegri lesari en ég. Fyrst ræddum við Karitas og Óreiðuna vegna verðlaunanna á degi tungunnar. Ásta var að ljúka endurlesningu á þeim í vikunni. Okkur finnst Kristín Marja vel að verðlaununum komin. Ásta líkir Karitas og Óreiðunni við Kristínu Lafransdóttur. Sem hún les reglulega.

Á seinni bollanum ræddum við hvernig í ósköpunum þessi mikla bókaútgáfa gæti staðið undir sér hjá svo lítilli þjóð. „Það verða varla allir ríkir sem gefa út bækur,“ sagði ég. „Hvað veit maður,“ sagði hún, „sjáðu æðið sem greip fólkið í síðustu viku þegar ný verslun opnaði. Þeir urðu að loka búðinni því að hver einasta tuska seldist og búðin tæmdist. Gjörsamlega tæmdist. Og lagerinn.“

„Mikið yrðu bókaútgefendur hamingjusamir ef bækur væru rifnar út af sömu ástríðu.“ „Það verður aldrei,“ svaraði hún, „mér skilst að það séu sárafáar bækur sem seljast í stórum upplögum.“ „Já, og helst reyfarar,“ sagði ég, „allir vilja lesa glæpareyfara. Það er reyfaradella í gangi þessi árin. Fólk stundar reyfarakaup,“ sagði ég og hló við orðaleiknum.

Eftir nokkra þögn bætti ég við: „Hvað ætli Dante hafi selst í mörgum eintökum? Það væri fróðlegt að vita.“ Það var þá sem Ásta stóð upp og sagði: „Jæja, það er kominn dagur.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.