„Ástin sem hreyfir stjörnurnar“

Til fróðleiks öðrum og sjálfum mér til ánægju birti ég hér upphafserindi Gleðileiksins guðdómlega eftir Dante. Fyrri þýðingin er eftir Guðmund Böðvarsson, útgefin 1968 af Bókaútgáfu menningarsjóðs. Sú seinni er eftir Erling E. Halldórsson útgefin af Máli og menningu 2010.

Hvernig svo sem menn meta bækur þá verður ekki fram hjá því gengið að sum bókmenntaverk lifa öðrum lengur og ekki er úr vegi að velta fyrir sér hvað það er sem gerir þau ódauðleg. Gleðileikurinn guðdómlegi er ortur á árunum 1307 til 1320.

Þýðing Guðmundar Böðvarssonar:

Við hálfnað skeiðið, einn og engum nærri,
ég áttavilltur stóð, í myrkum viði,
þeim stíg, er skyldi ég fara, órafjarri.

Ó, það að lýsa þessu dimma sviði,
hvar þöglir stofnar naktar greinar teygja,
rænir mig ennþá ró og sálarfriði,-

mér væri tæpast þyngri þraut að deyja;
-þó var hið góða nær en vænta mætti,
Því hlýt ég frá því öllu í söng að segja.
—————————————————

Þýðing Erlings E. Halldórssonar

Miðja vegu á vorri ævigötu rankaði ég við mér í dimmum skógi, því
ég hafði villst af veginum sem liggur beint. Æ, hve tregt er mér að tala
um hvernig hann var, þessi villti skógur, svo þéttur og torfær sem
hann var; bara að hugsa um hann vekur mér ennþá ugg, svo rammur
að trauðla er dauðinn verri! En til að segja frá því góða sem ég kynnt-
ist þar, mun ég líka skýra frá öðru sem ég sá.

Eitt andsvar við „„Ástin sem hreyfir stjörnurnar““

  1. Mér fellur stíll Guðmundar betur; hann er heldur nær upprunanum:

    „Nel mezzo del cammin di nostra vita
    mi ritrovai per una selva oscura,
    ché la diritta via era smarrita.“

    Ég hef þó ekki lesið þýðingu Erlings nema að örlitlum hluta, svo ég er ekki hlutlaus í skoðunum mínum.

    Hvað gerir ritverkin ódauðleg veit ég ekki nákvæmlega né treysti mér til að rekja. En ætli það hafi ekki eitthvað með áhugasvið eða jafnvel ótta mannkyns á hverju tímaskeiði að gera?

    Þakka þér fyrir pistilinn. Hann gaf mér hugmyndir, og olli umtalsverðum heilabrotum. Slíkt kann ég að meta.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.