Yfirleitt læt ég flest af því sem heyrist frá stjórnmálamönnum sem vind um eyrun þjóta. Eftir alllanga ævi og nýleg tímamót kann ég betur við hvin vindsins en fnæsið í þingmönnum. Í nýlokinni gönguferð um nágrennið spurði ég sjálfan mig hvað ég geti gert við atkvæði mitt í næstu alþingiskosningum.
Það fer að líða að því að flokkar í ríkisstjórn fara að taka ákvarðanir til að ganga í augun á kjósendum með í huga að fólk glepjist til að kjósa þá aftur. Sama gildir um flokka í stjórnarandstöðu. Þeir reyna að berja það inn í fólk að þeir eigi ráð við öllum vanda. Þetta hefur maður hlustað á í aðdraganda kosninga í gegnum tíðina.
Margir hafa fallið fyrir blekkingunum. Eða þá kosið „sína menn“ af vana þótt þeir vissu að fagurgalinn væri mýrarljós. Já, og jafnvel af gróinni andúð á „hinum“. Við næstu kosningar vil ég komast hjá því að endurtaka mistök eina ferðina enn. Þess vegna hlusta ég stundum á fólkið sem líklegt er til að bjóða sig fram og skima eftir nýju.
En ég heyri aldrei hreinan tón. Umræðan er meira og minna fölsk. Það er tungumál stjórnmálanna. Að baki hennar liggja yfirleitt hagsmunir tiltölulega fárra. Aldrei hagsmunir allra. Eins og dæmin hafa sýnt, bæði þá og nú. Og þess vegna vaknaði þessi spurning í huga mínum í göngunni áðan, þar sem ég spjallaði við vikusálirnar mínar um næstu alþingiskosningar: ,,Hvað geri ég þá við atkvæði mitt?“