Minning: Þóra Gunnarsdóttir, Kirkjulækjarkoti.

Mat fólks á verðmætum lífsins breytist með aldrinum. Hismið, rykið sem samtíðin þyrlar upp hættir að fanga og kjarni í hæverskum einfaldleika sínum stígur hljóðlátur fram. Í huganum rifjast upp myndir af köllurum hrópa erindi sín en innhald þeirra horfið í móðu.

Andstæðan, hógværðin og lítillætið, fá margfalt gildi. Þau eru af ætt þess sannleika, þeirrar speki, sem aldrei líður undir lok og leitar óþreytandi þeirra sem maklegir eru og láta þá finna sig. Því spekin er mannelskur andi.

Fyrir langa löngu kom ég í samkomu fámenns trúarsafnaðar í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð. Þátttakendur voru tólf manns. Allt sem fram fór vakti undrun og furðu. Tungutak, sálmaval, tjáning og tilbeiðsla svo gjörólíkt öllu áður kunnu. Andi einlægrar trúar, einlægrar auðmýktar og þakklætis til frelsarans sem gaf líf sitt í sektarfórn.

Þessari litlu hjörð tilheyrði Þóra Gunnarsdóttir. Hljóðlát kom hún í samkomurnar, settist með sálmabók og tók þátt. Hljóðlát fór hún að samkomu liðinni þegar aðrir tóku tal saman. Og hljóðlát sinnti hún endalausum heimilisstörfum í stórri fjölskyldu. Níu barna móðirin.

Í mínum augum var Þóra tákn þolgæðis. Öllum tilbrigðum lífsins virtist hún taka með einstöku æðruleysi. Þeim erfiðu þó fremur. Síðar kynntumst við betur. Þau hjónin, Þóra og Markús Grétar (d. 2001) urðu góðir vinir okkar og áttum við ánægjulegar stundir saman.

Þá var gjarnan rætt um atvikin þar sem Kristur reyndist leggja lið og opna sund sem virtust lokuð. Þá brosti Þóra og sýndist manni hún eiga dýpri og áþreifanlegri trúarreynslu en við hin. ,,Það er nú líkast til,“ sagði hún einhvern tíma þegar ég sagði frá trúar reynslu sem mér þótti mikið til koma. Það var svo sjálfsagt mál fyrir henni. ,,Það er nú líkast til.“

Með þessum fátæklegu síðbúnu orðum vottum við Þóru Gunnarsdóttur virðingu okkar. Sjaldgæf kona, stólpi og hetja, hefur kvatt. Blessuð sé minning hennar.Börnum hennar og öðrum ástvinum vottum við einlæga samúð.

Óli Ágústsson, Ásta Jónsdóttir

Eitt andsvar við „Minning: Þóra Gunnarsdóttir, Kirkjulækjarkoti.“

  1. Manni hlýnar í hjartanu að lesa svona grein..Mér finnst ég sjá þessa konu fyrir mér…þekkja hana. Við þyrftum að eiga fleiri svona PERLUR.
    Bestu kveðjur úr Heiðarbæ.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.