Það er alltaf hátíðlegt fyrir verkamann að fara í leikhús. Hann fer í bað, klæðir sig upp og reynir að vera fínn. Við hjónin sáum leikrit Auðar Övu í gærkvöldi. Það var skemmtilegt. Bráðskemmtilegt.
Ég upplifði sýninguna sem tvö verk. Annarsvegar orðin, samræðuna, og hins vegar leikinn, hreyfingarnar. Hef á tilfinningunni að orðræðan sé mörgum kunn úr hversdagsleikanum. Fólk kemur saman til að gera upp fjölskyldumál. Það þekkja margir. Án vængjanna sem leikurinn ljáir orðunum væri sagan ekki eins eftirminnileg.
Þess vegna upplifði ég leikritið sem afurð tveggja höfunda. Tveggja snjallra höfunda. Kristín Jóhannesdóttir er mikill listamaður. Það kemur vel í ljós í þessu verki. Og saman hafa listakonurnar skapað bráðskemmtilegt verk.
Kristbjörg Kjeld, ættmóðirin Steingerður, er alltaf sama drottningin. Hlutverk hennar er einskonar öxull verksins og hún skilar því dásamlega. ,,Ég vildi dansa..“ segir hún og ,,minn tími í kartöflunum er búinn.“ Margrét Vilhjálmsdóttir er alltaf hetja á sviði og það sýnir hún enn einu sinni í hlutverki Mörtu, eldri dótturinnar. ,,Taktu pilluna mamma mín…“
Hin þrjú, Nanna Kristín, Atli Rafn og Baldur Trausti skila hlutverkum sínum mjög vel. Að sjálfsögðu er krafan til þeirra mismikil eins og vera ber og þannig verður heildarmyndin ljómandi skemmtileg. Tjöld, búningar og hreyfingar móta verkið vel. Sýningin er bráðskemmtileg. Margt hnyttiyrði heyrðist og salurinn skellihló, aftur og aftur. Kona ein ofar í salnum þó öllum öðrum hærra.
Skrifa þetta til að þakka fyrir góða skemmtun sem og umslögin fimm sem ég tók með mér heim.