Jóhann Pálsson, minning

Látinn er á Akureyri kær vinur og kær trúbróðir, öðlingurinn Jóhann Pálsson. Með honum fækkar í rammanum okkar, vinunum sem stigu inn í hann fyrir liðlega fjörutíu árum. Jóhann var fæddur 28.10.1920 dáinn 24. júní 2011. Útför Jóhanns var gerð á Akureyri föstudaginn 1. júlí.

Jóhann var einn þeirra og Hulda, konan hans, Elínborg Hulda Sigurbjörnsdóttir. Hún lést árið 2003. Þau hjónin gerðust vinir okkar Ástu og barna okkar. Það var dýrmætt. Jóhann var góður biblíufræðari og ljúfur mannvinur. Hógvær og lítillátur. Barði sér aldrei á brjóst. Við áttum saman margar heilagar stundir. Stundum tveir saman. Þá ,,drógum við skó af fótum okkar“ og ræddum um meistarann frá Nasaret, Jesúm Krist. Hann var í augum okkar og hjörtum frelsari, hjálpari til að ,,kunngjöra náðarorð Drottins“.

Við tókum til ritningarstaði, ræddum þá og krufðum. Fórum með Kristi út í eyðimörkina, reyndum að greina glímu hans þar, bænaþjáningar, glímu sjálfs við sjálf, ýmist standandi, ýmist krjúpandi á kné, stundum flatur á jörðu og ákvörðun um að prédika hinum smáu guðsríkið, veldi náðarinnar í stað veldis lögmálsins. ,,Náð á náð ofan.“ Okkur sýndist ósegjanleg samúð og elska á mannkyni vera persónueinkenni Jesú. Guðspjallamaðurinn Jóhannes sagði frá því. Og var í uppáhaldi. Hann var táknaður með mynd arnarins sem flýgur öllum lífverum hærra, ofar geisandi stormum og stríði. Frásögn hans af samtali Krists við Nikódemus um endurfæðingu, skírn í vatni og skírn í eldi, urðu áhrifamestu vegvísarnir. Við Jóhann krupum gjarnan saman og tilbáðum.

Jóhann Pálsson hafði verið forstöðumaður Fíladelfíu á Akureyri í liðlega 30 ár. þegar við Ásta komum að máli við hann og Huldu og óskuðum eftir starfskröftum þeirra til að hjálpa til í starfi Samhjálpar hvítasunnumanna sem við leiddum. Þau brugðu skjótt við, án hiks og án þess að líta til baka. Það var mikill fengur fyrir Samhjálp. Með þolinmæði, einlægri trú og umhyggju sáði Jóhann boðskap elskunnar og bar smyrsl í sár margra sem til Samhjálpar leituðu. Á sama hátt starfaði Hulda. Hún trúði af ástríðu og saman unnu þau, örlát og kærleiksrík við að hlusta á brotið fólk og hvetja það til að rísa á fætur og gera enn eina tilraun til að ná tökum á lífi sínu. Þau eignuðust marga einlæga vini þar.

Orð guðfræðingsins og heimspekingsins Sörens Kierkegaards lýsa trú þessara vina vel. Hann skrifaði: ,,Trúin er nefnilega ekki nein tossalexía eða eftirsetuverkefni, heldur tilheyrir hún allt öðru sviði en þekkingin, þar sem hún er í raun ástríða, og meira að segja æðsta ástríða mannsins.“

Með einlægu þakklæti í huga kveðjum við Ásta kæran vin. Við minnumst hans og Huldu með hlýju og ornum okkur við góðar minningar í samfélagi við þau. Trú þeirra og traust á Jesú Kristi voru í sérflokki.

Að síðustu, Samúel, Rut Sigurrós, Hanna Rúna og Ágústa og aðrir ástvinir, við vottum ykkur einlæga samúð okkar við fráfall Jóhanns og blessum minningu hans. ,,Orðstír deyr aldregi, hveim sér góðan getur.“

Óli Ágústsson
Ásta Jónsdóttir

2 svör við “Jóhann Pálsson, minning”

  1. Mér hlýnar allri að innan að lesa um þau hjón Huldu og Jóhann, þó að mér vitanlega höfu við aldrei hittst.
    Guð blessi minningu þeirra og ávöxt starfs þeirra í guðsríki.

  2. Jóhann og Hulda voru elskuleg hjón sem vildu öllum vel. Ég kindist þeim hjónum á Akureyri og Hjalteyri og síðar í Hlaðgerðarkoti Jóhann og Hulda voru góð við það að bera smyrsli á sárinn okkar hjá okkur sem þurftum að dvelja þar um tíma. Man svo vel þegar Hulda sagði við mig Hilmar minn þú þarft að taka trú á frelsaran og þá munt þú öðlast nýtt líf með honum. Sama var það með Jóhann oft settist hann inní herbeki til mín og ræddi þessi mál við mig í sinni hóværð góðmennsku maður gat ekki annað hlustað á hann ég sá að þarna var maður sem vissi hvað hann var að tala um þegar trúmál voru annarsvegar það fór ekki á milli mála ! og viti menn held svei mér þá það síaðist inn í minn huga það sem hann sagði við mig já ekki vafi á því takk fyrir Jóhann. Þessi frábæru hjón eru nú farin frá okkur úr þessum heimi yfir um til hans sem þau bæði unnu svo heitt mikið held ég að þau séu ánæg þar saman. Takk Jóhann og Hulda fyrir það sem þið gerðuð fyrir mig þann tíma sem ég var með ykkur hér og þann fróðleik sem þið fræddu mig með og góðar leiðbeiningar út í lífið. Guð blessi minningu ykkar þið frábæru hjón. Hilmar Elíasson. Ps. Vona að það sé í lagi að setja þetta inn hér hjá þér Óli.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.