Föstudagurinn langi – 2011. Úr dagbók eldri borgara.

Þeir voru að mæta á svæðið eldsnemma, smáfuglarnir sem hafa skreytt móana og tilveru okkar undanfarin sumur, þarna á bökkum Hvítár í Borgarfirði þar sem við eigum lítinn kofa byggðan af vanefnum. Við erum svo þakklát að hann er lítill og kreppunni hefur ekki enn tekist að naga hann af okkur. Hvað sem verður. Eldri borgarar eiga ekki marga valkosti með afkomu þessi misserin.

Skógarþröstinn sáum við fyrst. Svo komu þeir hver af öðrum og í dagslok sýndist okkur allir mættir. Lóur, maríuerlur, þúfutittlingar, hrossagaukar. Þessir búa með okkur á skikanum. Litlu fjær eru sandlóur og spóar. Þau eru ekki mætt. Morguninn var þurr og lygn og ánægjulegt að fylgjast með þessum nágrönnum. Þeir eru samt varir um sig fyrstu dagana.

Við höfum tíðkað um langt árabil að helga föstudaginn langa textum Biblíunnar um atburði dagsins. Þeir eru okkur helgir. Það var því ánægjulegt að fá heimsókn sr. Agnesar Sigurðardóttur í morgunútvarpi með ljómandi pistil. Sr. Valgeir Ástráðsson messaði klukkan ellefu og beindi orðum sínum að krossinum og merkingu hans. Klukkan tvö mættum við í messu Hvammskirkju í Norðurárdal, hjá sr. Elínborgu Sturludóttur.

Kirkjan er lítil. Hún hefur 14 bekki sem taka fjóra í sæti hver. Það eru ekki góðir bekkir til að sitja í og þröngt á milli þeirra. Kirkjan var nærri fullsetin, milli 40 og 50 manns. Kjarni messunnar var lestur úr 19. Kafla Jóhannesarguðspjalls. Fólk úr sókninni annaðist hann ásamt prestinum. Samveran var andleg og umvefjandi í dásamlegum einfaldleika sínum.

Um kvöldið var svo Ævar Kjartansson með þátt á Rás eitt sem bar nafnið: Krossfestur, dáinn og grafinn. Fréttaskýring um pólitíska aftöku í Jerúsalem á þessum degi árið 30. Í þættinum ræddi Ævar við prófessor Jón Ma. og prófessor Arnfríði Guðmundsdóttur. Mér féllu svör Arnfríðar vel. Hún svaraði af þeirri visku sem leitast við að leiðbeina fólki til hjálpræðis.

Þetta var góður dagur. Við Ásta mín elduðum fisk og tengdum það hefðum. Og þótt mikið hafi rignt um miðjan daginn og snjó tekið upp á ásum og í giljum, þá endaði hann með því að himininn breiddi þétta hundslappadrífu yfir héraðið svo að jörð varð alhvít. Hvert sem litið var. Lína úr sálmi kom upp í hugann: Hvítari en snjór.

Við fórum snemma til rekkju, þakklát Guði fyrir Jesúm Krist sem gaf okkur ljós til að lifa við.

Eitt andsvar við „Föstudagurinn langi – 2011. Úr dagbók eldri borgara.“

  1. Já það er gott að eiga Jesú Krist að halla sér að.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.