Kappróður í rigningu

Það er ekki nema sjálfsagt að sem flestir verði sjómenn á sjómannadaginn. Við ákváðum, ég og gamla mín, að fara til Reykjavíkur og taka þátt. Aðalhvatinn var samt kappróðurinn, en við erum svo heppin að ein færeysku valkyrjanna í færeyska liðinu sem sigrað hefur undanfarin ár, er tengdadóttir okkar. Og auðvitað reynum við að styðja okkar fólk.

Það jók enn á ánægjuna að þetta er á sömu dögum og ég er að lesa þá frábæru bók, Glataðir snillingar, um dásamlegu ljúflingana hans Williams Heinesen og er því meira og minna smitaður af færeyskum hundrað ára gömlum anda bókarinnar.

Kvennaliðin halda af stað
Kvennaliðin halda af stað

En það rigndi drjúgt við höfnina þótt þurrt væri í Kópavogi. Andrúmsloftið mótaðist nokkuð af regninu, fólk pakkaði sér inn í úlpur og höfuðföt og nokkrir höfðu regnhlífar á lofti. Vætan seytlaði samt niður í hálsmálið þar sem við hímdum á bryggjunni við Kaffivagninn.

Mæðgurnar Ásta og Gunnbjörg
Mæðgurnar Ásta og Gunnbjörg
Færeyskar valkyrjur
Færeyskar valkyrjur

Það var heilmargt að sjá. Landsbjörg fór í ferð með fjölda fólks um Sundin. Hraðabátar dóluðu um í hafnarkjaftinum, Friðrik tengdasonur hringsólaði á hálfrar mílu hraða og ætlaði að njóta kappróðursins í nærmynd.

Friðrik á Krumma fylgist með
Friðrik á Krumma fylgist með

En eins og oft vill verða á íslenskum útihátíðum þá varð seinkun á keppninni. Því til viðbótar var fyrirkomulagið breytt frá fyrri árum og ekki einfalt að fylgjast með róðrinum. Merktur starfsmaður sem ég spurði hvar best væri að staðsetja sig til að fylgjast með vissi varla að keppt væri í róðri.

Friðrik skipstjóri, Hrönn og vinir
Friðrik skipstjóri, Hrönn og vinir

En færeysku konurnar sigruðu með yfirburðum. Ekki bara kvennakeppnina, heldur höfðu þær bestan tíma allra þátttakenda, kvenna og karla og rithöfunda. Eitt árið enn. Glæsilegar kvinnur.

Augljóst hverjar sigra
Augljóst hverjar sigra

Læt ég fáeinar myndir fljóta með til að skreyta pistilinn. Þær segja oft meira en þúsund orð. Smellið á þær og skoðið stærri gerðina.

3 svör við “Kappróður í rigningu”

  1. Fallegar myndir. Þetta var rómantískt veður þrátt fyrir ofankomuna. Og það á enginn roð við Færeyingunum.

  2. Takk fyrir athugasemdina Sigurbjörg.
    Vek athygli annarra á að sú rétta er í pistlinum hér á undan, sem heitir Slagur vindhörpunnar.

  3. Sæll aftur Óli. Hér átti athugsemdin mín að koma. Fór færsluvillt! Var að skipta um tölvu..Fljótfær.. en leiðrétti þetta hér með..
    Kveðja á ný og til hamingju með að eiga færeyska tengdadóttur!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.