Það vita auðvitað allir sem aka bílum að einhverju ráði að þegar ekið er hægt og jafnt sparast bensín allverulega. En hvort fólk almennt leggur í að aka hægar en á lögboðnum hámarkshraða á aðalþjóðvegum landsins er allt önnur saga. Því það liggur ljóst fyrir að umferðin er skrímsli sem æðir froðufellandi áfram langt yfir hámarkshraða og eirir engu.
Á leiðinni upp í Borgarfjörð s.l. föstudag tók ég þá djörfu ákvörðun að aka á 70 til 80 km/klst og aldrei yfir 90. Hvernig svo sem umferðin léti. Það var mjög erfitt upp fyrir Hvalfjarðargöng og ég fékk á tilfinninguna að ég bæri ábyrgð á flogaköstum margra þeirra sem áttu lífið að leysa og reyndu að ýta á bílinn minn.
Eftir göngin skánaði þetta nokkuð. Margir þeirra æstustu virtust eiga erindi á Akranes og það var léttir að losna við þá af dráttarkúlunni. Sem leið lá að Borgarfjarðarbrúnni vék ég reglulega og tæmdi uppsafnaðan vanda. Beið jafnvel eftir stærstu flutningabílunum með risavaxna aftanívagna hangandi í sér. Við brúna beygðum við norður Borgarfjarðarbraut en skrímslið ekki. Það var mikill léttir.
Svo í gær, sunnudag, á heimleið eftir hádegi, hélt ég uppteknum hætti með hraðann. Það var ljúflegt niður að Borgarnesi en þar var skrímslið heldur betur í ham. Uppistaðan í umferðinni var stórir jeppar með risavaxna skuldahala aftan í sér. Fellihýsi sem eru svo stór og breið að þeim nægir varla akreinin.
Þegar bílstjórar jeppanna höfðu tjáð gráðugan hraðalostann með því að aka svo nærri að því var líkast að þeir væru tengdir á dráttarkúlunni á mínum bíl, geystust þeir framúr og beygðu síðan svo snögglega inn á akreinina aftur að ég varð að hægja á til að lenda ekki á fellihýsinu sem þeir drógu. Var þó kominn eins langt út í kant og ég þorði.
Eftir því sem nær dró göngunum stífnaði ég meir og meir í bakinu og stóð mig að því að aka stöðugt á 90 km/klst. Hét því með samanbitnar varir að láta ekki þrýsta mér hraðar. Hafði umferðarlögin mér til stuðnings í því.
Þeir voru svo fimm eða sex, jepparnir með fellihýsin, sem biðu í röð við gjaldtökuskýlið þegar við fórum á lyklinum í gegn. Það er alltaf svo sætt.
Ekki er vegalöggan sammála þér um hraðamælinn í bílnum mínum. Kannski þarftu að endurskoða þitt eigið aksturslag.
Farir þú eftir hraðamælinum á bílnum þínum er hann líklegur til að sýna nokkrum km. meira á klst en raunveruleikinn er. Það þýðir að ef þú ekur aldrei hraðar en 90 samkvæmt mæli ertu líklega aldrei að fara yfir 85 o.s.frv.
Líklegast ertu þá að damla á 65 til 85. Það er stórhættuleg lestarstjóraferð á þjóðvegi 1 að mínu viti.
Hver er líklegur meðalhraði þess sem aldrei ekur yfir 90 km/klst? Og er nokkuð kveðið á um lágmarkshraða?
Þú sagðist hafa ekið á 70 til 80 og aldrei yfir 90. Það er ekki sama og halda sig við löglegan hámarkshraða.
Lestarstjórar eins og ég? Þar fékk ég það. Og fyrir það eitt að fara ekki yfir 90 km/klst. daginn þann. Það var titilsins virði.
Hraðakstursvargarnir og lestarstjórar eins og þú skapa mestu hættuna í umferðinni.