30. mars 1949 – svæðið eins og vígvöllur

Þegar við strákarnir á Grímsstaðaholtinu komum niður á Austurvöll var búið að kasta táragasi. Hvítliðar komnir fram með kylfur og mannfjöldinn tekinn að hlaupa í ýmsar áttir. Við komum hlaupandi um sundið sem lá frá Vonarstræti, framhjá hjá Listamannaskálanum og Baðhúsi Reykjavíkur yfir á Kirkjustræti. Það heyrðist mikill hávaði.

Austurvöllur var eins og vígvöllur. Lætin feikileg. Stærri strákarnir skelltu sér strax inn í hamaganginn og hurfu. Steindór bróðir þar á meðal. Allt í einu var ég orðinn einsamall. Þá minnkaði áhuginn í mér snarlega. Tveir karlmenn öskruðu á mig: „Þú ættir ekki að vera hér. Komdu þér heim til þín.“

Ég fór yfir að Landsímahúsinu. Allt í einu stefndi stór hluti hjarðarinnar þangað. Mér þótti vissara að koma mér af svæðinu. Þetta var 30. mars 1949. Afmælisdagur pabba míns. Hann tók þátt í mótmælunum. Afmælið gleymdist í látunum.

Á næstu dögum snérist umræðan um andúð á hvítliðunum og hlutverki þeirra. Í þeirra hópi voru margir sem síðar töldust hinir mætustu menn. Ég man mjög vel að ég var á bandi með inngöngu í Nato. Þótti gott að komast í varnarbandalag með bandaríkjamönnum. Ég var tólf ára þegar þetta gerðist. Steindór bróðir fimmtán. Hann kom heim löngu seinna en ég. Sæll og glaður með þátttöku sína sagði hann hetjusögur, hróðugur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.