Gæði samfélags – og tveir 30 manna hópar

Sagt er að það séu um það bil þrjátíu menn sem eiga mesta sök á fjármálaspillingunni. Öll þjóðin sýpur seyðið af atferli þeirra. Þessir 30 hafa helgað sig græðgi og yfirgangi í samfélaginu og rakað miskunnarlaust til sín margföldum arði af framleiðslu þjóðarinnar. Þar til síðustu 100 daga, hefur hópurinn notið virðingar og aðdáunar stjórnvalda sem hafa mært hann um langt árabil.

Þá er einnig sagt að það séu um það bil þrjátíu manns sem eiga sök á ofbeldinu sem iðkað hefur verið í mótmælum síðustu daga. Þrjátíu manns af öllum þeim þúsundum sem tekið hafa þátt i friðsömum mótmælum. Þessi þrjátíu manna hópur andæfir og beinir spjótum sínum að liðlega sextíu manns í ríkistjórn og á alþingi, fólkinu sem kosið var til að gæta hagsmuna þjóðarinnar en gerði það ekki.

Ofbeldishópurinn hefur, af stjórnvöldum, verið kallaður öllum illum nöfnum, honum mætt með lögregluvaldi, piparúða, táragasi og handtökum. Hinum hópnum, þeim sem helgaði sig græðgi og rúði þessa kynslóð og þær næstu, inn að skinni, hefur ekki verið mætt af stjórnvöldum með illum nöfnum, lögregluvaldi og handtökum.

Sagt er um ofbeldishópinn að hann sé samansettur af kunningjum lögreglunnar og utangarðsfólki. Það er hins vegar vitað að fjárglæfrahópurinn er samansettur af kunningjum stjórnmálamanna sem varið hafa þá við iðju sína. Fróðlegt verður að sjá hvernig dómsvaldið afgreiðir þessa tvo hópa þegar og ef þeir verða teknir fyrir.

Það var ánægjulegt að hlusta á Vilhjálm Árnason, prófessor í heimspeki, ræða við Egil í Kiljunni. Hann talaði um lýðræðismenningu: Frelsi – jafnrétti – bræðralag, orð sem stjórnmálamenn hafa gjarnan á hraðbergi í aðdraganda kosninga en nefna ekki eftir kosningar. Það hefur verið reglan á síðustu árum á Íslandi.

Niðurstaða Vilhjálms var í hnotskurn nokkurnveginn þessi: Að kerfið sem stjórnað er með komi þeim verst settu betur en önnur skipan. Að mæla ágæti samfélags út frá stöðu þeirra veikast settu.

Og maður spyr: Skyldi ný ríkisstjórn, eftir komandi kosningar, hafa dug til að bæta svo gæði samfélagsins að lífsgæði þeirra lakast settu verði viðunandi? Það hefur ekki verið gert til þessa.
Því verður nú hlustað með athygli á raddir nýrra manna þegar kosningar nálgast. Þeir sem fyrir eru hafa margir glatað trausti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.