Álftagerðisbræður og Nýi Guðjón

Gærkvöldið var óvenju gott hérna á sjöundu. Nýi Guðjón opnaði kvöldið með frábæru atriði í bankanum. Hnyttinn og beittur. Innheimtuseðillinn var stílaður á Gamla Guðjón. Nýja Guðjóni kom skuldin ekkert við. Hann hafði lært tæknina af útrásarbófunum. „Ég get reynt,“ sagði bankafulltrúinn þegar Nýi Guðjón sagði henni að troða innheimtuseðlinum upp í óæðri endann á sér.

Eftir Spaugstofu settum við mynddisk með Álftagerðisbræðrum í spilara. Okkur hafði verið lánaður diskurinn. Og það verður að segjast alveg nákvæmlega eins og það er, það var dásamlegt að sjá bræðurna, frjálsa og elagant venjulega menn fara á kostum í söng ,viðtölum, á æfingum og tónleikum í tilefni tvítugs afmælis þeirra.

Álftagerðisbræður
Álftagerðisbræður

Söngurinn og framkoman feyktu í burtu öllu þessu fúla andrúmslofti sem liggur yfir þjóðinni. Hnyttnir í orðum, fyndnir og græskulausir, hittu þeir í mark með mörgum innskotum á tónleikunum og þegar Gunna í Gröf komst í textann um Tondeleyjó þá sprakk salurinn og við tvö hér á sjöundu skellihlógum með. Kvöldið mótaðist af glaðværð bræðranna.

Það er ekki hægt annað en þakka innilega fyrir þessa ágætu skemmtun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.