Dilkur 32

„Er pláss fyrir púka? spurði ég Sámsstaðabóndann. Við gengum samsíða að réttinni. Dráttur var kominn á fullt. Fjöldi manns í önnum. Rauðir vatnsgallar mynduðu andstæður við hvíta réttarveggina. Þetta var í Þverárrétt í gærmorgun.

Undanfarin ár hef ég fengið áhorfendaaðstöðu í dilk 32. Hann heyrir til Sámsstöðum í Hvítársíðu. Fólkið er orðið vant mér og spjallar við mig eins og einn í fjölskyldunni. Það er þægilegt.

Í upphafi dags
Í upphafi dags

Svo er ég kominn upp á lag með að víkja að fólki og einn og einn víkur sér að mér. Það eru fremur fullorðnir menn. Og við rifjum upp aðferðir fyrri tíma. Sumir stæra sig af að vera eldri og muna lengra. Ég er sáttur við það. Og þarna hitti ég Rebekku Guðna. Það var óvænt.

Eyjólfur í Síðumúla
Eyjólfur í Síðumúla

Við bunkuðum okkur saman nokkrir. Eyjólfur í Síðumúla sagði frá því þegar sá siður var fastur að slegið var upp danspalli á réttardaginn og Paul Bernburg kom með hljómsveit úr Reykjavík og spilaði fyrir dansi.

Réttarstjórinn
Réttarstjórinn

Fólk hætti þá að draga á miðjum degi og tók að drekka brennivín og dansa. Drætti lauk því ekki fyrr en daginn eftir. Nú sést ekki vín á nokkrum manni. Allir einbeita sér að drættinum. Það gekk á með rigningardembum. Sunnan skúrum. Næstum því að sól skein á milli skúra.

Þóra og afi
Þóra og afi

Sæunn á Steinum var í þykkri ullarpeysu. Mátti ekki vera að því að fara í vatnsgalla. „Maður vonaði að það stytti upp,“ sagði hún. Um hádegi fjölgaði fólki enn. Réttarstjórinn, Davíð frá Arnbjargarlæk hrópaði hvellri röddu: „Bæta í almenninginn. Bæta í almenninginn.“

Hjón skima eftir markinu sínu
Hjón skima eftir markinu sínu

Fólk fjölmennti í nátthagann og gekk inn fyrir safnið og margi hóuðu og hrópuðu og sumir geltu, og börðu handleggjunum við síðurnar og ráku féð í áttina að réttinni. Davíð tók einnig að hóa og reka grunnskólakrakkana af veggjunum. „Farið af veggjunum. Krakkar. Farið af veggjunum strax. Annars fáið þið aldrei að koma í réttir oftar.“ Og hann klappaði saman höndum.

Blængur
Blængur

Allskyns aðkomufólk dró af kappi þótt það ætti enga kind og hefði aldrei átt. Lifði sig inn í stemninguna af alefli. Piltar, stúlkur, strákar, stelpur, karlar og konur. Leðja myndaðist á réttargólfinu, slubb, og sást það á margri manneskjunni. Hendur, kinnar og hár atað í leðju.

Ung stúlka
Ung stúlka
...og maður með hatt
...og maður með hatt

Ég vék mér að manni sem stóð og horfði yfir nátthagann. „Er nokkuð Kvía svipur hér?“ „Ja, það gæti nú alveg verið, en hver ert þú?“ „Viltu geta þér til?“ „Ég ræð ekkert við það,“ svaraði maðurinn. „Það eru fimmtíu ár síðan,“ bætti ég við og sagði á mér deili. „Ja, mikið andskoti,“ sagði hann þá og hófust nú allmiklar samræður.

Ein af tuttugu þúsund
Ein af tuttugu þúsund

Síðdegis heyrði ég af frænda Ástu, Guðmundi í Hlöðutúni, sem hafði mætt áttatíu sinnum í réttirnar. Fyrst þegar hann var átta ára. Hafði seinna verið fjallkóngur Stafholtstungna í hátt í tuttugu ár. Þetta var í fyrsta sinn sem hann treysti sér ekki. Fæturnir búnir.

Húsfreyjan í Dilk 32
Húsfreyjan í Dilk 32

Ég ákvað að koma við hjá honum í heimleið og leyfa honum að finna tað- og ullarlyktina af mér. „Mig langaði,“ sagði hann og leit undan. „Þið leitarmenn gistuð í Fornahvammi hér áður fyrr, var það ekki?“ spurði ég og gamli maðurinn fór á flug við upprifjun og sagði frá og hló næstum því. Við áttum ágætt samtal.

Fé á leið í heimahaga
Fé á leið í heimahaga

Á heimleiðinni, einn í bílnum, rifjaði ég upp samtöl og atvik dagsins, sæll og þakklátur fyrir frábæran dag. Þegar tók að halla niður að Hvalfjarðargöngunum geystist fólksbíll fram úr mér. Við námurnar beið löggan og skellti bláum blikkljósum á kauða. Dimm skúr kom yfir.

3 svör við “Dilkur 32”

  1. Tek undir með norðanklerki. Þetta er skínandi frásaga og glimrandi myndskreytingar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.